uno - Hausmynd

uno

Ég verð hér...

Ég verð líka á Íslandi um jólin.

 


Ég pissa á þessa Pisa könnun

Það hafa margir lýst yfir áhyggjum vegna niðurstöðu íslenskra nemenda í Pisakönnuninni sem birt var í byrjun mánaðarins. Það er engin ástæða til þess.

Í fyrsta lagi er ekkert slæmt að vera fyrir miðju í svona samanburðarkönnun.

Í öðru lagi eru ekki sambærilegir hópar að taka þátt í könnuninni milli landa. Á Íslandi er einungis 1% nemenda í sérskólum eða sérdeildum. Í Finnlandi, þar sem nemendum gekk best, er hlutfallið sjöfalt hærra. 7% finnskra barna eru í sérskólum eða sérdeildum og tóku því ekki þátt í prófinu.

Í þriðja lagi gengur bara þokkalega á Íslandi.

    Hvergi er betra að búa en á Íslandi

    Íslendingar eru langlífari en aðrir

    Íslendingar eru hamingjusamari en aðrar þjóðir

Ekki ímynda menn sér að útrás um heim allan í atvinnurekstri og sköpun sé vegna þess að menntunarstig hér sé svo lágt. Halda menn að Björk, Amina og Sigurrós væru betri ef þau hefði skorað hærra í Pisakönnun? 

Við eigum ekki að horfa til Finna sem fyrirmyndar í menntamálum, þó sjálfsagt sé að setja standardinn hátt og efla kennaramenntun og lengja.

Kennsla í Finnskum skólum er staglkennd og alþjóðlegar kannanir hafa sýnt að hvergi líður börnum verr í skóla en í Finnska skólakerfinu.

Ég pissa auðvitað ekkert á þessa könnun en Halla vinkona mín sagði að ég væri oft svo formlegur í þessu bloggi að hún hefði ekki kjark til að kommenta. Fyrirsögnin var gerð með þá athugasemd í huga. 


Í bláum skugga

Á mánudag var Jón Karl Ólafsson í Kastljósi sjónvarpsins í tilefni af því að hann var að láta af starfi forstjóra Æslander. Ég hef lítinn áhuga á málefnum félagsins en datt í að horfa á viðtalið sem kom sérdeilis vel út fyrir Jón Karl. Hann var ákaflega fágaður og yfirvegaður í framkomu án þess að virðast yfirborðskenndur eða kuldalegur. Það er sjaldgæft að sjá menn koma svona vel fyrir í sjónvarpi og augljóst það verður fengur í (eða að) Jóni á nýjum vinnustað.

Í kvöld var almannatengill í Kastljósi að gagnrýna að seld skuli 60 sekúndna auglýsing í Áramótaskaupið. Það var fyndið.

Almannatengill Það hljómaði eins og skaupið væri byrjað þegar því var haldið fram Skaupið væri háheilög stund. Ég er nú ekki sérlega trúaður en hugmyndir mínar um hvað er háheilagt eru af nokkrum öðrum toga en þær sem ég hef um skaupið.

Almannatengillinn hafði mörg önnur orð um sölu á þessari mínútu auglýsingu:

"...hreint út sagt fáránlegt.."

 "...peningaplokkarar á vegum ríkisútvarpsins troða inn auglýsingu í sextíu sekúndur er fáránlegt..."

 "...það eru líka siðferðisleg mörk, er ekki spurning um hve mikið af auglýsingafeni er hægt að troða oní kokið á landsmönnum á þessum degi..."

"...að bítast um auglýsingatekjur og vera blóðugir upp fyrir axlirhirða peninga af einkaaðilum..." 

"...að seilast oní vasa auglýsenda..." 

"...mér finnst óeðlilegt að sé verið að breyta þessu..."

Það kann að vera nauðsynlegt fyrir álbræðslur eða einhverjar mengandi stóriðjur að hafa almannatengil á sínum snærum. Það er örugglega gagnlegt fyrir svoleiðis bíssness. En mikið var kindugt að hlusta á mann úr þessum geira mótmæla því að fram færu viðskipti á auglýsingamarkaði.

Það var hin besta skemmtun á horfa á bæði þessi Kastljós. 

 


Orð dagsins: Heilsuefling

Nú skal ekki lengur tala um sjúkdóma enda heilbrigði og forvarnir í sókn. Nú skal nota orðið heilsuefling. Og víðtæk þverfagleg nálgun er lykillinn að árangri. Aðferðafræðingar í ráðuneyti heilbrigðis kunna auðvita miklu betur að efla heilsu fólks með spurningakönnunum heldur en læknar sem bara hafa lært læknisfræði. Þess vegna er auðvita líka ókei að 120 manns bíði eftir hjartaðgerð þó vitað sé að 7 til 13 % láti lífið meðan þeir hanga á biðlista.
 
Það er þrjátíu og níu þúsund miljón króna afgangur af fjárlögðum lagður inn á bankabók. Honum verður líklega varið í myndbandagerð. 
 
 
 

Cheerios siðfræði

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, skrifar á bloggi sínu í dag:

“Þeir eru í skjallbandalagi á netinu Jónas Kristjánsson og Egill Helgason og nú hafa þeir sameinast um þá hugmynd Péturs Gunnarssonar, ritstjóra eyjan.is, að hér eigi að vera fjórir óeirðabílar á vegum óreiðalögreglu undir minni stjórn…

…Ég verð að hryggja þessa áhugamenn um öryggismál með því, að ég hef ekki neina tillögu í þá veru, sem þeir lýsa. Þeir verða líklega að flytja á eyjan.is til að njóta hennar í framkvæmd.”


Og Pétur Gunnarsson ritstjóri svarar;

“Nú hef ég fengið staðfest að þetta kemur fram í því kostnaðarmati sem fjármálaráðuneytið gerði og fylgdi frumvarpinu um breytingar á lögreglulögum á ferð þess um íslenska stjórnkerfið, en vísan til bílanna mun ekki að finna í frumvarpinu sjálfu né greinargerð, enda væri það afar óvenjulegt að kveða á um það í lagatexta að kaupa eigi bíla. Slíkt er gert í fjárlögum eða fjáraukalögum.”


Ekki verður annað séð en sumir hafi kynnt sér Cheerrios siðfræðina og má þá liggja á milli hluta hvað er satt, ef maður bara segir það sem manni finnst. Í því geta dómsmálaráðherrar lent eins og aðrir.


Æðislegt aðhald

 

Það var auglýst eftir því á einu bloggi hér hvort eitthvað hafi skolast með alveg óvart, á síðustu dögum þingsins eins og í vor.

Þeir samþykktu að fella úr gildi lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra og korteri seinna samþykktu þeir fjárlög.

Fjárlögin eru aðhaldssöm og sem dæmi má nefna að framlög til meðferðar ölvaðra manna og drykkjusjúkra hjá SÁÁ eru skorin niður um rúmar 80 miljónir á sambærilegu verðlagi.

Enginn þingmaður lagði fram tillögu um hækkun framlaga til SÁÁ, Heilbrigðisnefnd þingsins hafði engan áhuga á því, heilbrigðisráðherra óskaði þess ekki og samninganefnd hans í viðræðum um þjónustusamning við samtökin er vel upplýst og gerir sér grein fyrir að niðurskurður blasir við.

Það má gera ráð fyrir að meðferð á Staðarfelli í Dölum verði lögð niður og árangur eftir afeitrun á Vogi muni þar með minnka. Það er líka rökrétt að gera ráð fyrir því að Bráðamóttöku SÁÁ verði lokað sem hefur í för með sér fækkun innlagna á Vog um eina 800 sjúklinga. Það má einnig búast við því að viðhaldsmeðferð fyrir ópíumefnafíkla verði skorin niður eða aflögð.

Þetta eru valkostir sem stjórn SÁÁ og samninganefnd ráðherrans þurfa að velja úr og þeir hafa allir slæm áhrif.

Álag á aðrar heilbrigðisstofnanir mun þar með aukast. Til dæmis verður meira að gera á Landspítalanum en afeitrunarmeðferð þar kostar þjóðarbúið þrisvar sinnum meira en afeitrun hjá SÁÁ.

Biðlistar munu lengjast og einhverjir sjúklingar munu leita eftir læknisþjónustu til ESB landa eins og þeim er heimilt, á kostnað Tryggingastofnunar Ríkisins.

Færri fíklar munu ná bata og þar með munu lögbrot,  róstur og ofbeldi í samfélaginu aukast með tilheyrandi kostnaði við löggæslu og margskonar heilsugæslu.

Að lokum má búast við því að það sama gerist og seinast þegar Bráðamóttöku SÁÁ var lokað og dauðsföll í sjúklingahópnum verði mjög mörg.

Við getum því óskað heilbrigðisráðherra, formanni Heilbrigðisnefndar og háttvirtum fjármálaráðherra til hamingju með fjárlögin, því þau eru aðhaldssöm og aldrei hefur tekjuafgangur (hagnaður) ríkisins verið meiri eða um þrjátíu og níu þúsund miljónir.


Afhverju bara 22?

Þetta er mannréttindamál. Afhverju skrifa ekki allir þingmenn undir?
mbl.is 22 þingmenn hafa undirritað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnavernd Reykjavíkur vanrækt

Ef einhver hefur burði til að taka á þessu það er það Björk Vilhelmsdóttir.

 


Elsta Sitkagreni Hafnarfjarðar riðar til falls

Ég hef það fyrir satt að elsta Sitkagreni í Hafnarfyrði sé í garðinum mínum. Það ver Else Snorrason úr apótekinu sem plantaði því um 1950. Sitkað mitt er því nærri sextíu ára. Þeir segja mér garðyrkjusérfræðingarnir að það sé um 15 metra hátt. Í dag lagði það af stað í sína hinstu för.

Grenitré

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það leit ekki vel út þegar þessi risi lagði af stað í rokinu og lítið annað að gera en kalla á hjálp. HJÁLP!

Hjálparsveitin

 

 

 

 

 

 

 

 

Fyrst komu bæjarstarfsmenn - og fóru. Svo komu skátarnir.

 Aðgerð

 

 

 

 

 

 

Og þeir hófust handa, strákarnir úr björgunarsveitinni klifruðu með trossu upp í tréð.

Aðgerð2

 

 

 

 

 

 

 

 

Þeir strekktu trossuna yfir í næsta stofn.

Það verður að fella tréð þegar lægir. Allt er í heiminum forgengilegt.

Ég hef verslað flugeld af björgunarsveitunum síðan ég var sjö ára. Það var gott að eiga þessa pilta að í dag. Heitir þetta ekki greiði á móti greiða? 

 


Nú ber að áminna heildsalann

Einhver var svo vinsamlegur að senda mér link á þessa frétt, sem annars hefði örugglega farið framhjá mér.

ber semsagt að áminna heildsalann ef yfirvöld ætla að fara að lögum. Brjóti hann af sér aftur næstu tvö ár má hann búast við að verða sviptur heildsöluleyfi á áfengi. Sektin sem slík er því smámunir.


mbl.is Heildsala braut áfengislög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfengisheildsalinn gæti misst leyfið fyrir Húsasmiðjubúsið

Ég hef bloggað hér og þar um áfengi sem afhent var börnum. Annað bloggið varð að tilfeni fréttar í Fréttablaðinu á Laugardag. Þar vakti eðlilega athygli að börn fengu áfengið afhent. Í afsökunarbeiðni og varnarorðum markaðsstjóra Húsasmiðjunnar koma þó fram upplýsingar um að þarna hafi verið á ferðinni markaðssetning sem virðist vera margfalt brot á áfengislöggjöf.

Magnús markaðsstjóri benti á að þarna hafi verið á ferðinni vörukynning af hálfu áfengisheildsalans sem lét sérstaka "kynningaraðila" annast markaðssetninguna. Kynningin, s.k. Konukvöld Blómavals var auglýst og þar kom fram að umræddur Breezer yrði í boði.

Í áfengislögum segir:

Innflutningsleyfi veitir leyfishafa jafnframt heimild til að selja eða afhenda innflutt áfengi til þeirra sem hafa leyfi til að framleiða, selja eða veita áfengi í atvinnuskyni.

Handhafa heildsöluleyfis er heimilt að selja eða afhenda áfengi til þeirra sem hafa leyfi til að framleiða, selja eða veita áfengi í atvinnuskyni.

Með því að afhenda  áfengið til Húsasmiðjunnar verður því ekki annað séð en Heildsalinn hafi brotið bæði heildsöluleyfi og innflutningsleyfi.

Í áfengislögum segir líka:

Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.

Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.


Með markaðssetningu eða "vörukynningu" af þessum toga virðist heildsalinn líka hafa brotið þessi ákvæði áfengislaga.

Verði handhafi leyfis sem gefið er út samkvæmt áfengislögum uppvís að vanrækslu á skyldum sem á honum hvíla  skal veita honum skriflega áminningu. Verði leyfishafi uppvís að frekari vanrækslu meðan áminning er enn í gildi skal það varða sviptingu leyfis um ákveðinn tíma.

Áfengisheildsalinn sem stóð að þessari kynningu með svo hrapalegum hætti að ofangreind ákvæði laga virðast hafa verið broti og þar á ofan komust börn í veigarnar heitir Mekka og er í eigu Íslensk Ameríska

Nú er það verkefni fyrir duglegan rannsóknarblaðamann að athuga hvort áfengisheildsalar hafi einhvern tíma fengið áminningu eins og skylda er samkvæmt lögunum. Þá gæti einnig komið í ljós hvort Íslensk Ameríka er í hættu með að missa spón úr hinum stóra aski sínum. 


Beðið eftir móttöku á Bráðamóttöku

Við bráðnauðsynlegar jólatiltektir skarst hann Halli á fingri í gær. Þetta var djúpur skurður og fannst bæði honum og fjölskyldu hans ástæða til að hann skryppi út á Slysó og léti rimpa þessu svöðusári saman.

Á Bráðamóttökunni sagði vinsamleg kona bak við gler að hægt yrði að taka á móti honum eftir um það bil fjóra klukkutíma.

Það er örugglega mismikið að gera á Bráðamóttökunni og einhver forgangsröð á verkum. En fjögurra tíma bið á Bráðamóttöku fyrir fjölda fólks segir manni annaðhvort að biðstofan sé full af fólki sem ætti að vera einhversstaðar annarsstaðar, eða að Bráðamóttakan er of lítil og undirmönnuð.


Vatn og brauð?

Í frétt í 24 stundum á laugardag sagði Magnús Einarsson fangi m.a.

"...Við fáum eina máltíð á dag og þurfum þess vegna að sjá okkur fyrir mat á kvöldin..."
 

Hlýtur að vera nokkuð strembið að verða sér úti um mat, svona með tilliti til þess að  maður er lokaður inni í fangelsi. Getur þetta verið rétt eftir Magnúsi haft?

 


Húsasmiðjan/Blómaval sendir frá sér yfirlýsingu

Magnús Magnússon markaðsstjóri Húsasmiðjunnar hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna kynningar á áfengi í versluninni sem ég bloggaði um hér á undan. Þar segir meðal annars:

"Við sem komum að rekstri Blómavals erum hreinlega miður okkar yfir þessu atviki og einsog ég hef sagt munum við endurskoða Konukvöldin okkar með hliðsjón að þessu og læra af reynslunni. Við gerum okkur vel grein fyrir því hve alvarlegt málið er og munum gera okkar besta til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og munum ekki leyfa kynningar á áfengum vörum aftur á uppákomum sem þessum þar sem börn eða fólk undir lögaldri hefur aðgang."


Þetta er gott hjá Magnúsi. það er hinsvegar umhugsunarefni hvaða stemming ríkir í samfélaginu gagnvart þessu vímuefni. Fyrir skömmu mátti lesa fréttir frá Englandi um að áfengi sem nú er hægt að kaupa þar í matvöruverslunum væri stórlega niðurgreitt til að fá kúnna til að gera innkaup í viðkomandi verslunum. Vandi vegna áfengisneyslu hefur vaxið gríðarlega í Bretlandi síðan lögum um sölu áfengis var breytt.

Jarðvegur fyrir þessa þróun virðist vera góður á Íslandi. Í dag var mér boðið á bókarkynningu. Í boðsbréfinu segir meðal annars:

"Með bókinni fylgir einn El Grillo bjór þannig að óhætt er að segja að þarna sé loksins komin bók með bjórbragði."


Bús í Húsó fyrir börn að djúsa

Þættinum hefur borist bréf.

 "Þú bloggar um áfengi handa börnum Hörður. Í gærkveldi átti ég erindi í Húsasmiðjuna ásamt 10 ára syni mínum og vini hans.

Meðan ég skoðaði jólaseríur af innlifun röltu þeir félagar um búðina í leit að einhverju sem þeim fannst áhugaverðara.

Þegar ég fann þá aftur stóðu vinirnir, tíu ára gamlir, með plastglös í höndum og drukki Breezer í boði Húsasmiðjunnar.

10636Ég er gáttaður og nánast orðlaus. Ekki er einasta óeðlilegt og ósmekklegt að verkfærabúð kynni áfengi það er líka ólöglegt. Þar fyrir utan stappar það nærri brjálæði að gefa 10 ára börnum það. Auk þess er ég sannfærður um að þær ungu stúlkur sem afhentu Breezer, hverjum sem hafa vildi, eru ekki orðnar tvítugar."

 

Svo mörg voru þau orð. Það getur hver sem er Googlað eftir lagabókstafnum um hvort þetta athæfi Húsasmiðjunnar er heimilt. Um siðferði og þankagang markaðsfólks í þessu kompaníi er ekki hægt að Googla. 


Hvað er svo glatt...

Mér er sagt að könnun um áfengisneyslu og aðra vímuefnaneyslu nemenda Menntaskólans við Hamarhlíð hafi verið í fréttum. Mér er líka sagt frá því að skólameistari segi könnunina óábyggilega og gefi ranga mynd.

Seinasta fimmtudag söng kór Menntaskólans við Hamrahlíð með Sinfóníuhljómsveit Ísland á tónleikum sveitarinnar í Háskólabíói. Mikil list.

Að tónleikum loknum var öllum listamönnum og heiðursgestum boðið í mikið hóf á Hótel Sögu þar sem áfengi var fyrir hvern og einn eins og hver og einn vildi. Gott og vel tónlistarmenn mega drekka þó þeir spili á kostnað skattborgara. Engan púritanahátt Hörður! En í kór menntaskólans eru börn niður í sextán ára að aldri.

Spurning hvort þetta ákvæði úr reglum M.H. eigi líka við um  kórferðir og listviðburði á hans vegum.

"Í skólanum er óheimilt að hafa um hönd áfengi eða önnur vímuvaldandi efni eða að vera undir áhrifum þeirra. Ákvæði þetta nær einnig til námsferða á vegum skólans."

Fyrirsögnin á þessu bloggi hefði kannski átt að vera; Drukkin börn í boði Sinfó 

 


Gosi, leikhús, prinsessa og pabbar, alsnægtir og asnar ásamt öðru

Í gær fórum við að hitta Gosa.

Prinsessan, sem eins og komið hefur fram er þriggja ára, er vön að fara í Þjóðleikhúsið til Skoppu og Skrýtlu. Við fórum þangað aftur og aftur og þegar maður fer á sýningu Skoppu og Skrýtlu, þá hittir maður þær. Þessvegna var ekki talað um að fara að sjá Gosa. Við fórum til að hitta Gosa, til móts við ævintýrið og til að taka þátt í göldrum leikhússins. 

Þó að leikhúsið heiti Borgar- en ekki Þjóð- hefur ekkert breyst síðan lítill drengur fór fyrir fjörtíu árum með pabba sínum að sjá Dýrin í Hálsaskógi. Bessi heitir Sveppi núna en að öðru leiti er allt eins. Það er hátíðlegt og magnað að fara í leikhús.

Sýningin var glæsileg. Við áttum von á að þriggja ára sál yrði kannski óstyrk og vildi forða sér burt svo við höfðum undirbúið hana eins og best við gátum. Lásum söguna oft vikuna fyrir sýningu og sögðum henni að ljósin yrðu slökkt og svoleiðis. Áhyggjurnar voru ástæðulausar, sýningin átti hug hennar allan.

Þegar ævintýrið um Gosa var skrifað var það samið sem framhaldssaga í tímarit eða dagblað á Ítalíu og einhvertíma las ég að þegar upphafið var skrifað hafi endanlegur söguþráður ekki verið fullskapaður. Höfundurinn varð að bæta við nýjum köflum vegna gríðarlegs áhuga kröfuharðra lesenda.

Pabbi prinsessunnar hugsaði um það meðan á sýningu stóð hvað það væri sérstakt að þarna væri ævintýri drifið áfram á ástinni milli barns og föður. Engin mamma í Gosa. Spes. Og engin sorg tengd móðurleysinu, því Gosi er vissulega eingetinn. Smiðurinn Jakob átti sér draum, ekki um konu, nei hann dreymdi um barn. Kúl kall hann Jakob. Eða mjúkur maður þessi trésmiður.

Það sem greinilega hafði mest áhrif á prinsessuna var þegar Gosi var lokaður inni í búrinu og þegar vondi sirkusstjórinn ætlaði að tukta hann til inni í búrinu var spennuþrungin sena. Í hléi gafst tækifæri til að skoða ljósmyndir og teikningar úr sýningunni. Gosi í búrinu var aðalatriðið.

Í hléi gafst pabbanum líka tækifæri til að fara í biðröð fyrir framan sælgætissölubásinn og hugsa um að allt væri nú eins í leikhúsinu. Lakkrísreimar, hrískúlur, Opal og Appelsín í gleri. Ekkert hefur gerst í fjörtíu ár, nema það að litlir einstaklingar eru ekki eins útsettir fyrir sykri og forðum tíð. Foreldrarnir, þessir miklu útsetjarar æskunnar hafa í nútímanum alveg áhuga á að bjóða börnunum sínum eitthvað annað en sykur.

Við gengum aftur inn í sal. Pabbinn með lakkrísreimar og prinsessan með Strumpagúmmí, sem hún borðaði ekki. Hvað mætti bjóða upp á í staðin hugsar pabbinn. Afhverju ekki ávextir, ristaðar hnetur eða harðfiskur? Prinsessan elskar harðfisk, segir hún. Sjálfur hefði pabbinn alveg verið til í að borga tvöhundruð krónur fyrir banana, eins og að borga sjöhundruð fyrir lakkrísreimar og Strumpagúmmí.

Eftir hlé lætur Gosi glepjast um borð í skip sem er á leið til Alsnægtalands, þar sem allir fá allt sem þeir vilja og geta borðað sælgæti allan daginn.

Í Alsnægtalandi fá allir

allt sem þá langar í 

Þar gnæfa gotteríshallir

við gul og bleik froðuský-

 

Lækir úr lakkrístaumum

ljómandi glassúrsnjór,

allt sem þú átt þér draum um

og auk þess gosdrykkjasjór.

 

Humm hugsar pabbinn, fær sér annan bita af lakkrís og finnst eins og hann þurfi að klóra sér bak við eyrun þegar farþegarnir á skipinu til Alsnægtalands fara að umbreytast. Hver er með löng og loðin eyru í þessum sal? 

Allt fer vel að lokum eftir stórkostulega skrautsýningu á hafsbotni, sem var listrænn hápunktur sýningarinnar. Hópur af ungum dönsurum og fimleikafólki, gerir frábæra sýningu stórkostulega. Það var enginn svikinn af töfrum leikhússins í gær og það var gaman að hitta Gosa og Sveppa að sýningu lokinni.

Sýningin var í boði bankans okkar. Við fengum miðana senda áður en við vissum að okkur langaði að sjá Gosa - takk fyrir það banki. Utan leikhúsdyranna beið Alsnægtaland, þar sem ekki þarf hagfræði og hagfræðinga því auðlindirnar eru ekki takmarkaðar, engu þarf að stjórna og allir geta fengið allt sem þeir vilja. Hverjum er þá ekki sama þó hann sé með löng eyru?


Hafdís Huld Húrra...

...ofstuðlað ég veit, en tilefnið er ærið. Ég hélt alltaf að hún hefði verið með í Gus Gus af því nördana vantaði einhverja svona unga og sæta stelpu. Algjör og fordómafullur misskilningur. Ég hef áttað mig á að Hafdís Huld er gott tónskáld, frumleg og snjöll. Það má þakka Laugardagslögum Ríkissjónvarpsins fyrir að opna augu mín fyrir því. Ragnheiður Gröndal og Magnús Þór eru meira mitt fólk heldur en Birgitta og Magni þannig séð. En Hafdís Huld átti skilið sigurinn í kvöld.

Blóm dagsins...

 

Hinn vikulegi þáttur blóm dagsins var kynntur til sögunnar fyrir viku. Það táknar að nú er aftur komið að blómi dagsins, eins og vera ber því þetta er vikulegur þáttur á uno.blog.is. Blóm dagsins er að þessu sinni hagfræðingur

uti01Hagfræðingur er sá sem numið hefur Hagfræði og stundar hagfræði. Algengast er væntanlega að lýsa Hagfræði sem þeirri fræðigrein sem fjallar um hvernig takmarkaðir framleiðsluþættir eru nýttir til að framleiða vörur og þjónustu til að mæta þörfum og óskum manna. Með framleiðsluþáttum er hér átt við allt sem nýtt er í slíkri starfsemi, svo sem vinna, þekking, náttúruauðlindir og fjármagn. Framleiðsluþættirnir, og þar með framleiðslugetan, eru takmarkaðir og því fá ekki allir allt sem þeir óska sér. Fyrir vikið þarf með einum eða öðrum hætti að ákveða hvað skuli framleiða og hverjir eigi að njóta góðs af slíkri framleiðslu.

 

 

Myndin er sótt á vefsíðu sem kemur upp ef googlað er eftir hagfræðingur. Skilgreiningunni er bísað af vísindavefnum, sem er vissulega blómlegur.


Heilbrigð sál...

 

Þær eru ágætir vinir fjölskyldunnar hér, tvær níu og ellefu ára systur í Setbergshverfinu, sem æfa íþróttir hjá Haukum. Ég man ekki hvort það er handbolti, fótbolti eða einhver annar bolti. Enda skiptir það ekki máli. Það sem skiptir máli í þessari frásögn eru áhrifin sem þjálfarinn hefur haft á þær systur. Í tvö ár hafa þær ekki drukki kók né aðra gosdrykki vegna þess að fyrirmyndin þeirra, þjálfarinn með eldmóðinn, segist ekki gera það og það sé verulega óholt.

Það er sagt frá þessu hér í samhengi við blogg um togstreituna um hvort áfengi eigi að vera innan dyra í íþróttahúsum. Og það er líka sagt frá þessu í samhengi við blogg frá í gær um að Bæjarstjórn Hafnarfjarðar sé á móti frumvarpi um sölu áfengis í matvöruverslunum, að einum bæjarfulltrúa undanskyldum.

Nú hefur mér verið bent á að bæjarfulltrúinn, Rósa Guðbjartsdóttir, sem svo gjarnan vill að vímuefni verði selt í matvörubúðum sé  einnig formaður  Knattspyrnudeildar íþróttafélagsins Hauka. Sá sem benti mér á þetta hafði það á orði að; "Bæjarfulltrúar þurfa stundum að hafa í huga hlutverk sín á öðrum vettvangi" Það er spurning hvort Rósa gerði það á seinasta bæjarstjórnarfundi og talað máli fótboltadeildar Hauka eða hvort málflutningur hennar þar var þvert á hagsmuni hinnar göfugu íþróttahreyfingar.

Fyrirsögnin hér gæti auðvita verið Formaður knattspyrnudeildar Hauka vill selja áfengi í matvöruverslunum. Þannig yrði bloggið jafnvel fréttnæmt. Mér finnst þó skemmtilegra að vísa til sálarinnar sem eitt sinn var í hraustum líkama íþróttahreyfingarinnar. 

Vonandi halda systurnar úr Setberginu áfram að hafa jafn frábærar fyrirmyndir hjá Haukum og unga konan með eldmóðinn, sem þjálfar þær núna, er þeim. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband