uno - Hausmynd

uno

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar vill ekki áfengi í matvörubúðir

Bæjarstjórn hafnarfjarðar fjallaði í gær um það fræga frumvarp Sigurðar Kára og félaga að selja megi áfengi í matvöruverslunum. Niðurstaðan umfjöllunarinnar var svohljóðandi:

"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar mælir eindregið gegn því að frumvarp til laga um sölu áfengis og tóbaks (sala léttvíns og bjórs), 6. þingmál, verði samþykkt. Reynsla annarra þjóða af auknu aðgengi að áfengi með afnámi einkasölu sýnir aukna neyslu, ekki síst meðal ungmenna og þar af leiðandi mikla fjölgun félagslegra og heilsufarslegra vandamála.


Þetta frumvarp stefnir því í þveröfuga átt eftir að náðst hefur mikilvægur árangur í forvörnum gegn notkun áfengis og annarra vímuefna, með markvissri vinnu í Hafnarfirði og víðar.
Einnig er vakin athygli á að ekki hefur verið leitað formlegrar umsagnar þeirra aðila sem skv. frumvarpinu munu bera ábyrgð á framkvæmdinni."

Mikil umræða varð á fundi bæjarstjórnarinnar um málið og eini bæjarfulltrúinn sem vill fá áfengi inn í matvörubúðir greiddi á endanum atkvæði á skjön við alla aðra bæjarfulltrúa. Það var Rósa Guðbjartsdóttir. 

 


Jafnrétti?

Ég hef aldrei þegið boð Egils Helgasonar um þátttöku í umræðuþættinum Silfri Egils. Það hefur ekki þótt fréttnæmt. Er það jafnrétti?

Þessir þokkapiltar...

770dr. Óttar G.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

...lesa upp úr bókum sínum á Sjávarbarnum Grandagarði 9 klukkan 21 þriðjudagskvöldið 27. nóvember.

Einar Már Guðmundsson les upp úr bók sinni Rimlar hugans og Óttar Guðmundsson les upp úr sinni bók sem heitir Kleppsspítalinn. Aðgangur er ókeypis en veitingamaðurinn mun bjóða upp á gular rauðar og grænar pillur, sem einnig verða gestum að kostnaðarlausu.

Bækurnar hafa báðar fengið mjög góða dóma enda stílsnillingar á ferð og miklir húmoristar. Það verður því gaman á Sjávarbarnum á morgun með þokkapiltunum og pillunum.


Dr. Phil.

 

Dr. Phil.

Æðri skólar

eðli þínu

aldrei gátu breytt.

 

Að hafa vit og vilja

menn verða til að skilja

 

Í staðinn fyrir

góða greind

ei getur komið neitt.

 

Svo orti Gunnar Dal 1988.


Sólveig Péturs taldi þingsystur sína ekki heila á geði

Steinunn Valdís Óskarsdóttir hefur lagt til, eins og frægt er orðið, að starfsheiti ráðherra verði breytt. Ég skrifaði stuttan pistil af því tilefni.

Í kommenti við þann pistil segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, fréttir sem einhvertíma rata inn í sögubækur, a.m.k. kvennasögubækur. Hún segir:

"Get ekki stillt mig um að upplýsa hér á þessum miðli að ég skrifaði eigin hendi fyrstu þingsályktunartillögu Kvennalistans um að breyta titlinum ráðherra.  Það var flutt að Guðnýju Guðbjörns og það var mikið hlegið að því.  Ég man að við Guðný hittum Sólveigu Péturs á  kaffistofu alþingis og spurðum hvað henni fyndist. Hún sagði við Guðnýju að hún gæti ekki verið með öllum mjalla."

Að vera ekki með öllum mjalla er að vera ekki heill á geði, klikk.

Seinna varð Sólveig  Dóms- og kirkjumálaráðherra, talin klár kona.


Evran tekur við eftir fjóra mánuði

Ef tekið er mið af þróun gengis seinustu daga er ljóst að Evran tekur við af krónunni eftir fjóra mánuði. Krónan hefur veikst um heil 6% seinustu átta daga.

Krónan hefur því veikst að jafnaði um 0,75% á dag. Það táknar að eftir 125 daga í viðbót er krónan horfin. Þá fáum við Evruna er það ekki?


Sveinbjörn...

Það sem ég vildi sagt hafa

 


Ég var einusinni stúlka

 

Það var líklega 1983, ég vara að vinna á dagheimili barna en þau eru kölluð leikskólar í dag. Það voru ekki allir á eitt sáttir í fjölskyldunni um þetta starfsval mitt, þótti ekki gott að karlmenn væru of mikið í kvennastörfum, en það var ekki verst.

Verra var að fá launaseðilinn, kaupið var skelfilega lágt, var undir lögboðnum lágmarkslaunum og því var liður á seðlinum sem hét láglaunauppbót. Þetta var slæmt, aðhlátursefni félaga sem unnu hjá Sambandinu og svoleiðis. En launin voru ekki það versta við launaseðilinn.

Starfsheitið sem ég gekk undir og fékk greidd laun samkvæmt var starfsstúlka. Mér þótti það niðurlægjandi og það þótti félögum mínum líka, sem unnu hjá Sambandinu og svoleiðis og þeir reiddust með mér.

Um hver mánaðamót hringdi ég í launadeild Reykjavíkurborgar og kvartaði. Það vakti lítinn áhuga í deildinni, og svörin voru á þá leið að þau ætluðu að skoða þetta. Þegar ég ítrekaði kröfur mínar með meiri festu, var því borið við að þetta væri inni í tölvunum. Tölvur voru þá jafn ósnertanlegar og óumbreytanlegar og ráðherrar, og ekki á allra færi að skilja fremur er þá herra.

Ég gafst ekki upp og sneri mér til stéttarfélagsins sem hafði svo sem ekki mikið um málið að segja enda hét það Starfsstúlknafélagið Sókn. Einhverju sinni vísaði ég svo til jafnréttislaga og hótaði málssókn og blaðaskrifum, þá stóð starfsmaður á næsta launaseðli.

Ég hef alltaf verið soldið stoltur af þessari jafnréttisbaráttu og hef fullan skilning á tillögum Steinunnar Valdísar sem var í kvöld að tala um tillögur sínar um nýtt starfsheiti fyrir ráðherra. Það er út í hött að kyngreina starfsheiti, sem ætlað er báðum kynjum, með þessum hætti.

En jafnréttis verður að gæta. Sá sem fer fram með þessum hætti getur ekki tínt til starfsheiti á toppnum en látið önnur alþýðlegri afskiptalaus. Steinunn, hvað með embættisheitið jólasveinn ? ?


Blóm dagsins

Ég hef ekki gert svona dagsins færslu áður. Það er vinsælt að skýra færslur dagsins eitthvað. Hrós... hux... ummæli... skandall... dagsins. Ég hef nú tekið upp nýjan þátt og mun vikulega kynna blóm dagsins. Blóm dagsins er að þessu sinni Þorsteinn.

Þorsteinn

 

Þorsteinn var Pálsson. Stúdent úr heimaskóla hjá séra Guðmundi Bjarnasyni á Hólmum 1829 síðar þingmaður suður Þingeyinga og einnig frömuður smáskammtalækninga hér á landi.

Eins og myndin ber með sér er Þorsteinn vel að titlinum kominn. 


Saklausir sviðsstjórar hlæja að yfirlöggu

Bloggaði hér um að aðstoðaryfirlögregluþjónninn Ómar Smári sakaði sviðstjóra hjá Hafnarfjarðarbæ um spillingu í seinasta Fjarðarpósti.

Í blaðinu sem kemur út í dag er þessum ásökunum svarað í tveimur greinum annarsvegar svara Björn Pétursson, bæjarminjavörður og Marín Hrafnsdóttir, menningar- og ferðamálafulltrúi Ómari á málefnalegan hátt. Hinsvegar skrifar Bjarki Pétursson, sem er sviðsstjóri skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar grein sem er ekki síður málefnaleg en jafnframt nokkuð hæðin.

Bjarki skrifar m.a: “Ómar segir orðrétt: „Menningarmálafulltrúinn er daglega undir sviðsstjóra byggingar- og skipulagssviðs.“ - Hér verð ég að valda honum vonbrigðum, því sú mæta kona hefur aldrei undir mér verið, hvorki stjórnsýslulega né á annan hátt.”

Eftir þessi svör má búast við einhverjum tilskrifum frá aðstoðaryfirlögregluþjóninum Ómari Smára en í upphaflegri grein sinni segir hann: “Eflaust mun einhver verða sendur fram á ritvöllinn af hálfu bæjaryfirvalda til andsvara, en það mun litlu breyta. Dæmin eru svo mörg að í hvert sinn, sem einhver tjáir sig, verður ávallt hægt að svara með nýjum.”

Við bíðum því spennt eftir framvindu meintrar spillingarmála í Hafnarfirði og þeirri stóru spurningu sem enn er ósvarað. Hvað með hina ómenningarlegu hoppukastala?


Ekkert smá Sérstakt K

Þingsályktunartillaga Ástu Ragnheiðar rak GUB (Greiningardeild Uno blog) til skoðunar á hvenær létt er létt og holt er holt. Ekki eru til reglur um það, en meðal einstakra þjóða virðast vera einhverjar viðmiðanir. Í Bandaríkjunum liggja reglur að baki því hvenær má kalla matvæli fitusnauð en ekki eru reglur um hver mörkin eru varðandi kolvetnasnauða fæðu en áætlanir eru uppi milli Evrópusambandsins og USA um að samræma viðmið.

En GUB komst við rannsóknir sínar að mjög áhugaverðum hlutum. Matvæli sem hafa sama vöruheiti geta haft mismunandi efnainnihald milli landa. Þannig komst GUB að því að í sérstöku Kái (Special K) er nærri 35% meiri sykur hér hjá okkur á Íslandi heldur en paradís neytendanna USA. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd ef hún "prentast" vel.

Erindrekar GUB höfðu ekki gert sér grein fyrir því  að þegar þeir snæða Sérstakt K borða þeir 17% sykur. Það er meiri sykur en fer í kaffið þeirra.

 spesialKJpeg3


Óskalistinn..

þetta er algjör... en kostar að vísu 2500$

Er Sigurður Kári á móti öllu?

Auðvita eru ekki allir sammála um hvort leggja eigi línur um hvenær megi auglýsa óhollustu og hvenær ekki. Sigurður Kári þingmaður er á móti því að slíkar línur verði lagðar.
 
Hvernig er það með hann Sigurð Kára hann er bara alltaf á móti öllu? Hann var á móti því að reykingar yrðu aflagðar á veitingahúsum og starfsfólk nyti þeirra sjálfsögðu mannréttinda að vinna í reyklausu umhverfi. Hann er á móti nýjum heildarlögum um jafna stöðu karla og kvenna og nú er hann á móti því að kannað verði hvort gera megi samkomulag um að óhollusta verði ekki auglýst í barnaefni fjölmiðla.

Ætli megi segja um hann þessi fleygu orð:
“Mér er fullkunnugt um það að ef háttvirtur þingmaður mundi ráða einhverju þá yrðu hér engar framfarir.”

Bannað að auglýsa franskar?

Bretland, Danmörk, Finnland, Írland, Spánn og Þýskaland hafa sett sérstakar reglur um markaðssetningu matvæla. Og auglýsingar um hamborgara, gosdrykki og annað ruslfæði verða bannaðar í sjónvarpi í Bretlandi, samkvæmt áætlun breskra stjórnvalda um aðgerðir gegn offitu barna. Þá verða sérstakir viðvörunarmiðar settir á matvöru sem inniheldur mikla fitu, salt eða sykur.

Á morgun leggur Ásta R. Jóhannesdóttir frama tillögu til þingsályktunar um að fela heilbrigðisráðherra að kanna grundvöll fyrir setningu reglna um takmörkun auglýsinga matvöru sem beint er að börnum ef matvaran inniheldur mikla fitu, sykur eða salt, með það að markmiði að sporna við offitu, einkum meðal barna og ungmenna.

Það verður athyglisvert að sjá hvaða viðbrögð þessi tillaga fær.

Hvernig var þetta nú aftur Sigurður Kári og Ágúst Ólafur?
“Af hverju getum við ekki haft þetta eins og í löndunum í kring um okkur?”


Fúsk í forvörnum

Ari Matthíasson framkvæmdastjóri SÁÁ talar tæpitungulaust í áliti á pistli sem skrifaður er á heimasíðu samtakanna, væntanlega í tilefni af forvarnardegi. Hann segir m.a.:

"Í allri þessari umræðu og stefnumótun eru fagaðilar áberandi fjarverandi. Þannig eru læknar sem sinna áfengissjúkum og vita meira um hagi þeirra og félagslegar aðstæður ekki með. Þetta er eins og að skipuleggja forvarnir við krabbameinum eða hjartasjúkdómum án þess að þeirri vinnu komi læknar og vísindaleg þekking læknisfræðinnar.

Hinir velviljuðu áhugamenn sem sífellt eru að taka á því í nafni hins góða málefnis vinna málaflokknum stundum meira ógagn en gagn með brölti sínu. Ástæðan er að við fáum tilfinningu fyrir árangri sem enginn er og að verið sé að vinna til gagns þar sem ekki hefur tekist að sýna fram á nokkurn árangur með neinum þeirra mælinga sem við slíkt eru notaðar.

Þessi vinna kallar sem sagt á sóun á fjármunum í fjársveltum geira; ekki er verið að sinna hinum veiku eins og hægt er, aðstandendur þeirra sitja á hakanum, áhættuhópum er ekki sinnt, leitarstarfi er ekki sinnt og ekki er unnið í því að draga úr hinum raunverulegu áhættuþáttum.

Ástæða þess að svo er komið er auðvitað getuleysi og þekkingarskortur hinna velviljuðu áhugamanna og heimska og hégómi stjórnmálamannanna sem eftir þeim hlaupa til að vera með á myndinni."


Brennivín í íþróttahúsinu

Las það í Fréttablaðinu á föstudagsmorgun að ÍA hefði brotið reglur Akranesskaupsstaðar með því að halda almennan dansleik með vínveitingum í íþróttahúsinu sínu.

Mér fannst þetta athyglisvert, því daginn áður var ég á fundi með forvarnarnefnd og íþrótta- og tómstundaráði Hafnarfjarðar þar sem reglur um skemmtanahald í íþróttahúsum voru til umræðu. Menn hafa greinilega mismiklar áhíamennyggjur af vínveitingum inni í þessum húsum.

 Íþróttafulltrúinn mætti vel undirbúinn til leiks á fundinn með  handskrifaða ályktun í farteskinu og talaði lengi um sögulegar staðreyndir. Það var fróðlegt.

 Ástand þessara mála hefur versnað í Hafnarfirði og ef gripið er til orðalags íþróttafulltrúans þá eru íþróttahúsin farin að hýsa risastór sveitaböll, með öllu sem því fylgir, inni í miðjum bæ.

Frést hefur af börnum inni á þessum skemmtunum, reykt hefur verið innan dyra, drykkjulæti og slagsmál verið, skemmdir á salernum og parketi og lögreglu hefur verið meinaður aðgangur. Ekki gott.

 Á hinn bóginn hafa einhverjir fulltrúar í Íþróttaráði áhyggjur af því að það verði túlkað þannig að ekki megi vera gaman í Hafnarfirði ef svona samkomur verða bannaðar og það fylgdi líka sögunni að þessar samkomur væru góð tekjulind fyrir íþróttafélögin.

 

Opinber forvarnarnefnd verður að stíga hóflega til jarðar og gæta þess að ana ekki af stað með forsjárhyggju, því það er fátt jafn slæmt í nútíma samfélagi og það að einhver taki ráðin af öðrum.  Við samþykktum því bókun Íþróttafulltrúans eftir að Forvarnarfulltrúinn hafði komið henni í stafrænt form. Hún er nú aðgengileg á óravíddum alnetsins og til vitnis um þennan fund sem tók ekki jafn afgerandi afstöðu og bæjarstjórnin á Akranesi hefur greinilega gert.

 


Eins og Lára stóra

Hún er í leikskóla prinsessan, og orðin þriggja. "Ég er stór" segir hún "Ekki lengur á litlu deildinni"

Það fylgir því sú upphefð að eldast að vera færður milli deilda og vera með þeim stóru. Það er margt fólk á Grænu deildinni, börn og fullorðnir. Jóhönnur, Bárur, Lárur og annað fólk sem pabbinn kann ekki öll skil á en fær fregnir af á hverju síðdegi. Ein þeirra er Lára stóra.

Lára er hvorki sérlega stór eða klunnaleg, hún hefur þetta viðurnefni af því í barnahópnum er nafna hennar og Lára er starfsmaður. Jafnvel þó hún væri sérlega lítil kona eða jafnvel dvergur væri hún sennilega kölluð Lára stóra af börnunum.

Við vorum í innkaupaleiðangri feðginin.

Eigum viða að kaupa svona?

Nei svona eigum við heima.

Pabbi kaupum nammi!

Nei það er ekki nammidagur.

Bara nammidagur á laugardaginn? Þá fæ ég sleikjó á priki!

 

Þetta gengur vel. Prinsessan tekur rökum, sem er meira en hægt er að segja um allar prinsessur. Og það er næsta víst að á laugardaginn verði loforð um sleikjó ekki innheimt, enda stúlkan ekkert fyrir sykur þó hann sé stundum litfagur.

 

Við drykkjarvörukælinn er rekið upp stríðsöskur. "Pappi vei i i i i i !"

Hún stekkur af stað og tekur traustataki sótavatnsflösku með dumbrauðum miða. Pabbinn les að þetta sé Berg-toppur, sykurlaus með sólberjakeim.

"Eins og Lára stóra segir sú stutta" og það verður engum vörnum við komið, þetta sótavatn verður að kaupa.

 

Á leiðinni heim situr prinsessan kirfilega reyrð niður í barnabílstólinn og sýpur á sótavatni með sólberjakeimi. Er þetta gott spyr pabbinn.

"Nei" er svarað stutt og laggott en áfram sopið á.

Afhverju ertu þá að drekka þetta?

"Eins og lára stóra"

Ég er ósköp ánægður með að það er ágætis fólk á leikskólanum, sem drekkur ekki kók, reykir ekki fyrir framan börnin og segir ekki sjitt og dísös í öðruhverju orði. Þessar ágætu manneskjur sem þarna vinna eru fyrirmyndir prinsessunnar og stuðla að því að hún verði hæf sem drottning þegar fram líða stundir og konungsríkið verður allt hennar.


Sá sem býr í glerhúsi...

...ætti að hafa fataskipti í kjallaranum.

Yfirlögregluþjónn sakar sviðsstjóra um spillingu

 

Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sakar sviðsstjóra Bygginga- og skipulagssviðs Hafnarfjarðar um spillingu í grein sem hann ritar í Fjarðarpóstinn sem kemur út á morgun.

Ómar skrifar:
“Tökum menningar- og ferðamálanefnd Hafnarfjarðar sem dæmi. Menningarmála fulltrúinn er daglega undir sviðstjóra bygginga- og skipulagssviðs. Tillögur, sem koma inn á borð ferðamálafulltrúa, eru færðar á borð sviðsstjóra. Hann ákveður (meira og minna) í hvaða farveg þær eigi að fara. Sumar rata yfir til Byggðasafns Hafnarfjarðar þar sem þegar hefur verið ákveðið hver skuli gera hvað. Þar situr m.a. eiginkona sviðsstjórans. Það eitt vekur tortryggni.”

Svo rekur Ómar tvö dæmi þar sem hann virðist telja að um óeðlilega afgreiðslu verkefna sé að ræða en gefið er í skyn að eiginkona sviðsstjórans hafi fengið verkefnin. Aðstoðaryfirlögregluþjóninum virðist að fámenn klíka fái tiltekin verkefni og segist búa yfir sönnunargögnum í formi tölvupósts. Ómar segir svo að lítt stoði fyrir bæjaryfirvöld að svara fyrir hátternið með greinaskrifum, hann lumi á svo mörgum dæmum.

Í greininni kemur einnig fram að Ómari þykja hoppukastalar ekki menningarlegir og eigi ekki heima á menningarsamkomum í bænum. Á Reykjanesskaga séu fjölmargar minjar um búsetu- og menningarsögu og virðing þeirra og minning eigi ekkert skylt við hoppukastala.

 


Afsakið meðan að ég æli

Nei, þó fyrirsögnin gefi það til kynna að ritari sé einn af sexmenningaklíku borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og ætli að hefja illt umtal um Björn Inga, þá er það ekki svo.

Hér hafa heimilismenn verið haldnir ælupest af kvikindislegri sort. Prinsessan höndlar það best. Getur nánast ælt á hlaupum, þeir sem eldri eru ganga í gegnum meiri átök. Sá einn sem ekki hefur lent í þessu subbu gubbustandi er bloggarinn.

Það hefur hægst á skrifum hér, þið megið kalla það meðvirkni alveg sjálfsagt. Málið er bara að ég get ekki látið hafa það á mig seinna meir að þegar fjölskyldan lá í ælupest hafi ég bloggað sem aldrei fyrr. Um það vitni fjöldi heimspekilegra vangaveltna á víðernum alnetsins.

Svo – nú safnast í sarpinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband