uno - Hausmynd

uno

Eins og Lára stóra

Hún er í leikskóla prinsessan, og orðin þriggja. "Ég er stór" segir hún "Ekki lengur á litlu deildinni"

Það fylgir því sú upphefð að eldast að vera færður milli deilda og vera með þeim stóru. Það er margt fólk á Grænu deildinni, börn og fullorðnir. Jóhönnur, Bárur, Lárur og annað fólk sem pabbinn kann ekki öll skil á en fær fregnir af á hverju síðdegi. Ein þeirra er Lára stóra.

Lára er hvorki sérlega stór eða klunnaleg, hún hefur þetta viðurnefni af því í barnahópnum er nafna hennar og Lára er starfsmaður. Jafnvel þó hún væri sérlega lítil kona eða jafnvel dvergur væri hún sennilega kölluð Lára stóra af börnunum.

Við vorum í innkaupaleiðangri feðginin.

Eigum viða að kaupa svona?

Nei svona eigum við heima.

Pabbi kaupum nammi!

Nei það er ekki nammidagur.

Bara nammidagur á laugardaginn? Þá fæ ég sleikjó á priki!

 

Þetta gengur vel. Prinsessan tekur rökum, sem er meira en hægt er að segja um allar prinsessur. Og það er næsta víst að á laugardaginn verði loforð um sleikjó ekki innheimt, enda stúlkan ekkert fyrir sykur þó hann sé stundum litfagur.

 

Við drykkjarvörukælinn er rekið upp stríðsöskur. "Pappi vei i i i i i !"

Hún stekkur af stað og tekur traustataki sótavatnsflösku með dumbrauðum miða. Pabbinn les að þetta sé Berg-toppur, sykurlaus með sólberjakeim.

"Eins og Lára stóra segir sú stutta" og það verður engum vörnum við komið, þetta sótavatn verður að kaupa.

 

Á leiðinni heim situr prinsessan kirfilega reyrð niður í barnabílstólinn og sýpur á sótavatni með sólberjakeimi. Er þetta gott spyr pabbinn.

"Nei" er svarað stutt og laggott en áfram sopið á.

Afhverju ertu þá að drekka þetta?

"Eins og lára stóra"

Ég er ósköp ánægður með að það er ágætis fólk á leikskólanum, sem drekkur ekki kók, reykir ekki fyrir framan börnin og segir ekki sjitt og dísös í öðruhverju orði. Þessar ágætu manneskjur sem þarna vinna eru fyrirmyndir prinsessunnar og stuðla að því að hún verði hæf sem drottning þegar fram líða stundir og konungsríkið verður allt hennar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hahahaha.....

sættttttt

Halla (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 19:53

2 Smámynd: Gísli Hjálmar

Skemmtileg saga úr hversdagsleikanum ...

Gísli Hjálmar , 17.11.2007 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband