uno - Hausmynd

uno

Ég var einusinni stúlka

 

Það var líklega 1983, ég vara að vinna á dagheimili barna en þau eru kölluð leikskólar í dag. Það voru ekki allir á eitt sáttir í fjölskyldunni um þetta starfsval mitt, þótti ekki gott að karlmenn væru of mikið í kvennastörfum, en það var ekki verst.

Verra var að fá launaseðilinn, kaupið var skelfilega lágt, var undir lögboðnum lágmarkslaunum og því var liður á seðlinum sem hét láglaunauppbót. Þetta var slæmt, aðhlátursefni félaga sem unnu hjá Sambandinu og svoleiðis. En launin voru ekki það versta við launaseðilinn.

Starfsheitið sem ég gekk undir og fékk greidd laun samkvæmt var starfsstúlka. Mér þótti það niðurlægjandi og það þótti félögum mínum líka, sem unnu hjá Sambandinu og svoleiðis og þeir reiddust með mér.

Um hver mánaðamót hringdi ég í launadeild Reykjavíkurborgar og kvartaði. Það vakti lítinn áhuga í deildinni, og svörin voru á þá leið að þau ætluðu að skoða þetta. Þegar ég ítrekaði kröfur mínar með meiri festu, var því borið við að þetta væri inni í tölvunum. Tölvur voru þá jafn ósnertanlegar og óumbreytanlegar og ráðherrar, og ekki á allra færi að skilja fremur er þá herra.

Ég gafst ekki upp og sneri mér til stéttarfélagsins sem hafði svo sem ekki mikið um málið að segja enda hét það Starfsstúlknafélagið Sókn. Einhverju sinni vísaði ég svo til jafnréttislaga og hótaði málssókn og blaðaskrifum, þá stóð starfsmaður á næsta launaseðli.

Ég hef alltaf verið soldið stoltur af þessari jafnréttisbaráttu og hef fullan skilning á tillögum Steinunnar Valdísar sem var í kvöld að tala um tillögur sínar um nýtt starfsheiti fyrir ráðherra. Það er út í hött að kyngreina starfsheiti, sem ætlað er báðum kynjum, með þessum hætti.

En jafnréttis verður að gæta. Sá sem fer fram með þessum hætti getur ekki tínt til starfsheiti á toppnum en látið önnur alþýðlegri afskiptalaus. Steinunn, hvað með embættisheitið jólasveinn ? ?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Álfhóll

Takk fyrir þessa færslu Hörður. Skemmtileg.  Get ekki stillt mig um að upplýsa hér á þessum miðli að ég skrifaði eigin hendi fyrstu þingsályktunartillögu Kvennalistans um að breyta titlinum ráðherra.  Það var flutt að Guðnýju Guðbjörns og það var mikið hlegið að því.  Ég man að við Guðný hittum Sólveigu Péturs á  kaffistofu alþingis og spurðum hvað henni fyndist. Hún sagði við Guðnýju að hún gæti ekki verið með öllum mjalla. Mér sýnist Steinunn taka það næstum hrátt upp. 

Svo vil ég bjóða þig velkominn í bloggheima. Þú átt að skrifa miklu, miklu meira en ég veit til þess að þú gerir. þú átt svo létt með það....

Bestu kveðjur heim til þín.

Guðrún

Álfhóll, 25.11.2007 kl. 20:17

2 Smámynd: Hörður Svavarsson

Takk fyrir vinsamleg orð og sérstaklega fyrir fréttirnar sem eiga heima í sögubókum en ekki í kommentakerfi þessarar fábrotnu bloggsíðu.

Hörður Svavarsson, 25.11.2007 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband