uno - Hausmynd

uno

Gosi, leikhús, prinsessa og pabbar, alsnægtir og asnar ásamt öðru

Í gær fórum við að hitta Gosa.

Prinsessan, sem eins og komið hefur fram er þriggja ára, er vön að fara í Þjóðleikhúsið til Skoppu og Skrýtlu. Við fórum þangað aftur og aftur og þegar maður fer á sýningu Skoppu og Skrýtlu, þá hittir maður þær. Þessvegna var ekki talað um að fara að sjá Gosa. Við fórum til að hitta Gosa, til móts við ævintýrið og til að taka þátt í göldrum leikhússins. 

Þó að leikhúsið heiti Borgar- en ekki Þjóð- hefur ekkert breyst síðan lítill drengur fór fyrir fjörtíu árum með pabba sínum að sjá Dýrin í Hálsaskógi. Bessi heitir Sveppi núna en að öðru leiti er allt eins. Það er hátíðlegt og magnað að fara í leikhús.

Sýningin var glæsileg. Við áttum von á að þriggja ára sál yrði kannski óstyrk og vildi forða sér burt svo við höfðum undirbúið hana eins og best við gátum. Lásum söguna oft vikuna fyrir sýningu og sögðum henni að ljósin yrðu slökkt og svoleiðis. Áhyggjurnar voru ástæðulausar, sýningin átti hug hennar allan.

Þegar ævintýrið um Gosa var skrifað var það samið sem framhaldssaga í tímarit eða dagblað á Ítalíu og einhvertíma las ég að þegar upphafið var skrifað hafi endanlegur söguþráður ekki verið fullskapaður. Höfundurinn varð að bæta við nýjum köflum vegna gríðarlegs áhuga kröfuharðra lesenda.

Pabbi prinsessunnar hugsaði um það meðan á sýningu stóð hvað það væri sérstakt að þarna væri ævintýri drifið áfram á ástinni milli barns og föður. Engin mamma í Gosa. Spes. Og engin sorg tengd móðurleysinu, því Gosi er vissulega eingetinn. Smiðurinn Jakob átti sér draum, ekki um konu, nei hann dreymdi um barn. Kúl kall hann Jakob. Eða mjúkur maður þessi trésmiður.

Það sem greinilega hafði mest áhrif á prinsessuna var þegar Gosi var lokaður inni í búrinu og þegar vondi sirkusstjórinn ætlaði að tukta hann til inni í búrinu var spennuþrungin sena. Í hléi gafst tækifæri til að skoða ljósmyndir og teikningar úr sýningunni. Gosi í búrinu var aðalatriðið.

Í hléi gafst pabbanum líka tækifæri til að fara í biðröð fyrir framan sælgætissölubásinn og hugsa um að allt væri nú eins í leikhúsinu. Lakkrísreimar, hrískúlur, Opal og Appelsín í gleri. Ekkert hefur gerst í fjörtíu ár, nema það að litlir einstaklingar eru ekki eins útsettir fyrir sykri og forðum tíð. Foreldrarnir, þessir miklu útsetjarar æskunnar hafa í nútímanum alveg áhuga á að bjóða börnunum sínum eitthvað annað en sykur.

Við gengum aftur inn í sal. Pabbinn með lakkrísreimar og prinsessan með Strumpagúmmí, sem hún borðaði ekki. Hvað mætti bjóða upp á í staðin hugsar pabbinn. Afhverju ekki ávextir, ristaðar hnetur eða harðfiskur? Prinsessan elskar harðfisk, segir hún. Sjálfur hefði pabbinn alveg verið til í að borga tvöhundruð krónur fyrir banana, eins og að borga sjöhundruð fyrir lakkrísreimar og Strumpagúmmí.

Eftir hlé lætur Gosi glepjast um borð í skip sem er á leið til Alsnægtalands, þar sem allir fá allt sem þeir vilja og geta borðað sælgæti allan daginn.

Í Alsnægtalandi fá allir

allt sem þá langar í 

Þar gnæfa gotteríshallir

við gul og bleik froðuský-

 

Lækir úr lakkrístaumum

ljómandi glassúrsnjór,

allt sem þú átt þér draum um

og auk þess gosdrykkjasjór.

 

Humm hugsar pabbinn, fær sér annan bita af lakkrís og finnst eins og hann þurfi að klóra sér bak við eyrun þegar farþegarnir á skipinu til Alsnægtalands fara að umbreytast. Hver er með löng og loðin eyru í þessum sal? 

Allt fer vel að lokum eftir stórkostulega skrautsýningu á hafsbotni, sem var listrænn hápunktur sýningarinnar. Hópur af ungum dönsurum og fimleikafólki, gerir frábæra sýningu stórkostulega. Það var enginn svikinn af töfrum leikhússins í gær og það var gaman að hitta Gosa og Sveppa að sýningu lokinni.

Sýningin var í boði bankans okkar. Við fengum miðana senda áður en við vissum að okkur langaði að sjá Gosa - takk fyrir það banki. Utan leikhúsdyranna beið Alsnægtaland, þar sem ekki þarf hagfræði og hagfræðinga því auðlindirnar eru ekki takmarkaðar, engu þarf að stjórna og allir geta fengið allt sem þeir vilja. Hverjum er þá ekki sama þó hann sé með löng eyru?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Skemmtilegt að lesa þetta.  Og hugmyndin um að selja eitthvað annað en sælgæti á okurverði fyrir börn og fullorðna í leikhúsinu finnst mér góð. Það þyrfti að koma henni lengra. Ég vil líka harðfisk!

María Kristjánsdóttir, 14.12.2007 kl. 06:33

2 Smámynd: Hörður Svavarsson

Takk fyrir það María. Kosturinn við bloggið er að það er hægt að koma svona litlum hugmyndum áfram. Nú er hún komin til þín.

Hörður Svavarsson, 14.12.2007 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband