uno - Hausmynd

uno

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ekki tjáir að deila...

 

...um dómarann, skipun hans eða ráðherrann.

Ekki tjáir að deila um sölu eigna á Keflavíkurflugvelli,  ráðherrann eða bróður hans.

 


Tvístígandi Hafnfirskir Sjálfstæðismenn

 

Fjarðarpósturinn kom inn um lúguna í dag. Þar í, er grein eftir Almar Grímsson bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna, hvar hann skammar Samfylkingu fyrir að lækka ekki fasteignagjöld Í Hafnarfirði.

Á Bæjarráðsfundi í gær lagði bæjarstjóri, Lúðvík Geirsson, fram tillögu um lækkun á álagningarstofnum fasteignagjalda fyrir árið 2008.

Í 24 stundum í dag segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna "Umræða síðustu daga hefur að okkar mati haft þessi áhrif og þetta er að mínu mati bara tækifærismennska hjá Lúðvík.“

Er ekki komið  eitt dæmið til viðbótar um hve  einstaklingarnir í litlum bæjarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði eru ósamstíga? Spurning hvort þriðja fulltrúanum tekst ekki að hafa þriðju skoðunina í einu og sama málinu eins og áður hefur tekist.

 

 


H E L G I S P J Ö L L !

Hér hefur allt verið í lamasessi síðan seint á gamlárskvöld

Húsmóðirin hefur ekki farið undan sæng. Þau fáu skipti hún opnar augun stynur hún upp “Ó Guð minn góður.. Guð minn góður.. Hvernig gátu þeir gert þetta?”

Litla barnið labbar um ganga, vannært og illa hirt, horfir út í fjarlægt tóm og segir í sífellu “Auling, auling”

Unglingurinn hefur ekki látið sjá sig.

Sjálfur er ég nánast of máttfarinn til að pára þessi orð, en þetta kann að verða það síðasta sem fréttist af okkur áður en við gefumst endanlega upp.

Hvernig gátu þeir fengið þetta af sér? Hver ber ábyrgð á þessu?

Hvernig datt þeim í hug að setja auglýsingu í sextíu sekúndur inn í Skaupið?

Og nú á að endursýna þetta.!!!


Hafnfirskir Sjálfstæðismenn Lögbrjótar og Flokkurinn Klofinn

 

Það er greint frá því hér að á seinasta bæjarstjórnarfund í Hafnarfirði var mættur þriðji varamaður af lista Sjálfstæðisflokksins í forföllum Haraldar Þórs Ólasonar bæjarfulltrúa.

“… hvorki María Gylfadóttir, fyrsti varamaður af D-lista, né Bergur Ólafsson, annar varamaður virðast hafa átt þess kost að sitja fundinn. A.m.k. var hvorugt þeirra á fundinum.” Segir Guðmundur Rúnar Árnason á bloggvef bæjarfulltrúa og undrast hin miklu forföll.

Nú hef ég fengið staðfest að a.m.k. annar þeirra varamanna sem ekki komu á bæjarstjórnarfundinn var við símann allan fundardaginn en engin tilraun var gerð til að hafa samband við hann af félögum hans í Sjálfstæðisflokknum.

Það að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks gangi framhjá tveimur fyrstu varamönnum sínum, til að kalla þann þriðja til bæjarstjórnarfundar, lyktar ekki einungis af ósamstöðu innan flokksins heldur virðist það líka vera lögbrot.

Í 24. Grein Sveitarstjórnarlaga segir;
“Varamenn taka sæti í sveitarstjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir þegar aðalfulltrúar þess lista sem þeir eru kosnir af falla frá, flytjast burtu eða forfallast varanlega á annan hátt eða um stundarsakir frá því að sitja í sveitarstjórn.”

Það hefur gerst, að til Félagsmálaráðuneytis hefur verið kvartað vegna nákvæmlega svona brots, þ.e. að kalla ekki til fremsta varamann og ráðuneytið hefur úrskurðað slíkan gjörning óheimilan.

Það er leiðinlegt þegar ósætti milli fólks, sem þó hefur kosið sér að vinna saman, leiðir það út í þær ógöngur að fara á svig við lög.

En svona er þetta, ósætti virðist ekki eingöngu vera í fjölmennum flokki sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hinn fámenni flokkur sjálfstæðismanna í Hafnarfirði virðist líka klofinn í margar áttir eins og Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarpóstsins gerir að umtalsefni í leiðara fyrir skömmu.


Trúlega ótrúlegt

 

Í tilefni af síðasta bloggi stingur Gísli vinur minn upp á að ég segi prinsessunni þriggja ára söguna um Tannálfinn góða.

Í haust var ágætur læknir í fréttum að hafa áhyggjur af því að foreldrar færu ekki með börn í nauðsynlegar bólusetningar út af sögusögnum um tengsl bólusetninga og einhverfu. Tengsla sem eru algjörlega úr lausu lofti gripin. Læknirinn telur að á Íslandi sé góður jarðvegur fyrir hindurvitni og nýaldarhyggju.

Í haust hafa líka átt sér stað miklar umræður um trúmál, nýja og aðlagaða þýðingu á biblíunni og ásókn trúboða inn í barnaskóla. Ekki er vitað til að nokkur maður, trúaður eða trúlaus, hafi skipt um skoðun við allar þessar umræður. Einn biskup vill þó gera trúfélag sitt að píslarvotti vegna þessarar umræðu.

Svo er það jólasveinninn. Ég hef þrætt þann hárfína veg gagnvart prinsessunni að ljúga ekki að henni, án þess að svipta hana ævintýrinu. Á óravíddum Alnetsins má nú finna mynd af okkur feðginum í jólasveinabúningum að bera út gjafir.

Þannig er það ljóst að þó við vitum ekki hvort jólasveinninn og Jesú séu til – þá erum við viss um að það eru til menn sem hjálpa þeim og það þjónar ekki sérstökum tilgangi að efast opinberlega. Það skiptir enginn um skoðun hvort eð er.

Tannálfurinn – hvað kemur hann þessu við. Jú hann gæti breytt dúett í tríó. Ekki á það bætandi.

Fyrir hina sem samt vilja meira er hér þrettán mínútna fyrirlestur um afhverju fólk trúir skrítnum fyrirbærum.
 



Myndbandið virðist vera óratíma að hlaðst niður, hér er stutta leiðin.

 


Ég pissa á þessa Pisa könnun

Það hafa margir lýst yfir áhyggjum vegna niðurstöðu íslenskra nemenda í Pisakönnuninni sem birt var í byrjun mánaðarins. Það er engin ástæða til þess.

Í fyrsta lagi er ekkert slæmt að vera fyrir miðju í svona samanburðarkönnun.

Í öðru lagi eru ekki sambærilegir hópar að taka þátt í könnuninni milli landa. Á Íslandi er einungis 1% nemenda í sérskólum eða sérdeildum. Í Finnlandi, þar sem nemendum gekk best, er hlutfallið sjöfalt hærra. 7% finnskra barna eru í sérskólum eða sérdeildum og tóku því ekki þátt í prófinu.

Í þriðja lagi gengur bara þokkalega á Íslandi.

    Hvergi er betra að búa en á Íslandi

    Íslendingar eru langlífari en aðrir

    Íslendingar eru hamingjusamari en aðrar þjóðir

Ekki ímynda menn sér að útrás um heim allan í atvinnurekstri og sköpun sé vegna þess að menntunarstig hér sé svo lágt. Halda menn að Björk, Amina og Sigurrós væru betri ef þau hefði skorað hærra í Pisakönnun? 

Við eigum ekki að horfa til Finna sem fyrirmyndar í menntamálum, þó sjálfsagt sé að setja standardinn hátt og efla kennaramenntun og lengja.

Kennsla í Finnskum skólum er staglkennd og alþjóðlegar kannanir hafa sýnt að hvergi líður börnum verr í skóla en í Finnska skólakerfinu.

Ég pissa auðvitað ekkert á þessa könnun en Halla vinkona mín sagði að ég væri oft svo formlegur í þessu bloggi að hún hefði ekki kjark til að kommenta. Fyrirsögnin var gerð með þá athugasemd í huga. 


Í bláum skugga

Á mánudag var Jón Karl Ólafsson í Kastljósi sjónvarpsins í tilefni af því að hann var að láta af starfi forstjóra Æslander. Ég hef lítinn áhuga á málefnum félagsins en datt í að horfa á viðtalið sem kom sérdeilis vel út fyrir Jón Karl. Hann var ákaflega fágaður og yfirvegaður í framkomu án þess að virðast yfirborðskenndur eða kuldalegur. Það er sjaldgæft að sjá menn koma svona vel fyrir í sjónvarpi og augljóst það verður fengur í (eða að) Jóni á nýjum vinnustað.

Í kvöld var almannatengill í Kastljósi að gagnrýna að seld skuli 60 sekúndna auglýsing í Áramótaskaupið. Það var fyndið.

Almannatengill Það hljómaði eins og skaupið væri byrjað þegar því var haldið fram Skaupið væri háheilög stund. Ég er nú ekki sérlega trúaður en hugmyndir mínar um hvað er háheilagt eru af nokkrum öðrum toga en þær sem ég hef um skaupið.

Almannatengillinn hafði mörg önnur orð um sölu á þessari mínútu auglýsingu:

"...hreint út sagt fáránlegt.."

 "...peningaplokkarar á vegum ríkisútvarpsins troða inn auglýsingu í sextíu sekúndur er fáránlegt..."

 "...það eru líka siðferðisleg mörk, er ekki spurning um hve mikið af auglýsingafeni er hægt að troða oní kokið á landsmönnum á þessum degi..."

"...að bítast um auglýsingatekjur og vera blóðugir upp fyrir axlirhirða peninga af einkaaðilum..." 

"...að seilast oní vasa auglýsenda..." 

"...mér finnst óeðlilegt að sé verið að breyta þessu..."

Það kann að vera nauðsynlegt fyrir álbræðslur eða einhverjar mengandi stóriðjur að hafa almannatengil á sínum snærum. Það er örugglega gagnlegt fyrir svoleiðis bíssness. En mikið var kindugt að hlusta á mann úr þessum geira mótmæla því að fram færu viðskipti á auglýsingamarkaði.

Það var hin besta skemmtun á horfa á bæði þessi Kastljós. 

 


Æðislegt aðhald

 

Það var auglýst eftir því á einu bloggi hér hvort eitthvað hafi skolast með alveg óvart, á síðustu dögum þingsins eins og í vor.

Þeir samþykktu að fella úr gildi lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra og korteri seinna samþykktu þeir fjárlög.

Fjárlögin eru aðhaldssöm og sem dæmi má nefna að framlög til meðferðar ölvaðra manna og drykkjusjúkra hjá SÁÁ eru skorin niður um rúmar 80 miljónir á sambærilegu verðlagi.

Enginn þingmaður lagði fram tillögu um hækkun framlaga til SÁÁ, Heilbrigðisnefnd þingsins hafði engan áhuga á því, heilbrigðisráðherra óskaði þess ekki og samninganefnd hans í viðræðum um þjónustusamning við samtökin er vel upplýst og gerir sér grein fyrir að niðurskurður blasir við.

Það má gera ráð fyrir að meðferð á Staðarfelli í Dölum verði lögð niður og árangur eftir afeitrun á Vogi muni þar með minnka. Það er líka rökrétt að gera ráð fyrir því að Bráðamóttöku SÁÁ verði lokað sem hefur í för með sér fækkun innlagna á Vog um eina 800 sjúklinga. Það má einnig búast við því að viðhaldsmeðferð fyrir ópíumefnafíkla verði skorin niður eða aflögð.

Þetta eru valkostir sem stjórn SÁÁ og samninganefnd ráðherrans þurfa að velja úr og þeir hafa allir slæm áhrif.

Álag á aðrar heilbrigðisstofnanir mun þar með aukast. Til dæmis verður meira að gera á Landspítalanum en afeitrunarmeðferð þar kostar þjóðarbúið þrisvar sinnum meira en afeitrun hjá SÁÁ.

Biðlistar munu lengjast og einhverjir sjúklingar munu leita eftir læknisþjónustu til ESB landa eins og þeim er heimilt, á kostnað Tryggingastofnunar Ríkisins.

Færri fíklar munu ná bata og þar með munu lögbrot,  róstur og ofbeldi í samfélaginu aukast með tilheyrandi kostnaði við löggæslu og margskonar heilsugæslu.

Að lokum má búast við því að það sama gerist og seinast þegar Bráðamóttöku SÁÁ var lokað og dauðsföll í sjúklingahópnum verði mjög mörg.

Við getum því óskað heilbrigðisráðherra, formanni Heilbrigðisnefndar og háttvirtum fjármálaráðherra til hamingju með fjárlögin, því þau eru aðhaldssöm og aldrei hefur tekjuafgangur (hagnaður) ríkisins verið meiri eða um þrjátíu og níu þúsund miljónir.


Afhverju bara 22?

Þetta er mannréttindamál. Afhverju skrifa ekki allir þingmenn undir?
mbl.is 22 þingmenn hafa undirritað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barnavernd Reykjavíkur vanrækt

Ef einhver hefur burði til að taka á þessu það er það Björk Vilhelmsdóttir.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband