uno - Hausmynd

uno

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Nú ber að áminna heildsalann

Einhver var svo vinsamlegur að senda mér link á þessa frétt, sem annars hefði örugglega farið framhjá mér.

ber semsagt að áminna heildsalann ef yfirvöld ætla að fara að lögum. Brjóti hann af sér aftur næstu tvö ár má hann búast við að verða sviptur heildsöluleyfi á áfengi. Sektin sem slík er því smámunir.


mbl.is Heildsala braut áfengislög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfengisheildsalinn gæti misst leyfið fyrir Húsasmiðjubúsið

Ég hef bloggað hér og þar um áfengi sem afhent var börnum. Annað bloggið varð að tilfeni fréttar í Fréttablaðinu á Laugardag. Þar vakti eðlilega athygli að börn fengu áfengið afhent. Í afsökunarbeiðni og varnarorðum markaðsstjóra Húsasmiðjunnar koma þó fram upplýsingar um að þarna hafi verið á ferðinni markaðssetning sem virðist vera margfalt brot á áfengislöggjöf.

Magnús markaðsstjóri benti á að þarna hafi verið á ferðinni vörukynning af hálfu áfengisheildsalans sem lét sérstaka "kynningaraðila" annast markaðssetninguna. Kynningin, s.k. Konukvöld Blómavals var auglýst og þar kom fram að umræddur Breezer yrði í boði.

Í áfengislögum segir:

Innflutningsleyfi veitir leyfishafa jafnframt heimild til að selja eða afhenda innflutt áfengi til þeirra sem hafa leyfi til að framleiða, selja eða veita áfengi í atvinnuskyni.

Handhafa heildsöluleyfis er heimilt að selja eða afhenda áfengi til þeirra sem hafa leyfi til að framleiða, selja eða veita áfengi í atvinnuskyni.

Með því að afhenda  áfengið til Húsasmiðjunnar verður því ekki annað séð en Heildsalinn hafi brotið bæði heildsöluleyfi og innflutningsleyfi.

Í áfengislögum segir líka:

Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.

Með auglýsingu er átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.


Með markaðssetningu eða "vörukynningu" af þessum toga virðist heildsalinn líka hafa brotið þessi ákvæði áfengislaga.

Verði handhafi leyfis sem gefið er út samkvæmt áfengislögum uppvís að vanrækslu á skyldum sem á honum hvíla  skal veita honum skriflega áminningu. Verði leyfishafi uppvís að frekari vanrækslu meðan áminning er enn í gildi skal það varða sviptingu leyfis um ákveðinn tíma.

Áfengisheildsalinn sem stóð að þessari kynningu með svo hrapalegum hætti að ofangreind ákvæði laga virðast hafa verið broti og þar á ofan komust börn í veigarnar heitir Mekka og er í eigu Íslensk Ameríska

Nú er það verkefni fyrir duglegan rannsóknarblaðamann að athuga hvort áfengisheildsalar hafi einhvern tíma fengið áminningu eins og skylda er samkvæmt lögunum. Þá gæti einnig komið í ljós hvort Íslensk Ameríka er í hættu með að missa spón úr hinum stóra aski sínum. 


Beðið eftir móttöku á Bráðamóttöku

Við bráðnauðsynlegar jólatiltektir skarst hann Halli á fingri í gær. Þetta var djúpur skurður og fannst bæði honum og fjölskyldu hans ástæða til að hann skryppi út á Slysó og léti rimpa þessu svöðusári saman.

Á Bráðamóttökunni sagði vinsamleg kona bak við gler að hægt yrði að taka á móti honum eftir um það bil fjóra klukkutíma.

Það er örugglega mismikið að gera á Bráðamóttökunni og einhver forgangsröð á verkum. En fjögurra tíma bið á Bráðamóttöku fyrir fjölda fólks segir manni annaðhvort að biðstofan sé full af fólki sem ætti að vera einhversstaðar annarsstaðar, eða að Bráðamóttakan er of lítil og undirmönnuð.


Vatn og brauð?

Í frétt í 24 stundum á laugardag sagði Magnús Einarsson fangi m.a.

"...Við fáum eina máltíð á dag og þurfum þess vegna að sjá okkur fyrir mat á kvöldin..."
 

Hlýtur að vera nokkuð strembið að verða sér úti um mat, svona með tilliti til þess að  maður er lokaður inni í fangelsi. Getur þetta verið rétt eftir Magnúsi haft?

 


Húsasmiðjan/Blómaval sendir frá sér yfirlýsingu

Magnús Magnússon markaðsstjóri Húsasmiðjunnar hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna kynningar á áfengi í versluninni sem ég bloggaði um hér á undan. Þar segir meðal annars:

"Við sem komum að rekstri Blómavals erum hreinlega miður okkar yfir þessu atviki og einsog ég hef sagt munum við endurskoða Konukvöldin okkar með hliðsjón að þessu og læra af reynslunni. Við gerum okkur vel grein fyrir því hve alvarlegt málið er og munum gera okkar besta til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og munum ekki leyfa kynningar á áfengum vörum aftur á uppákomum sem þessum þar sem börn eða fólk undir lögaldri hefur aðgang."


Þetta er gott hjá Magnúsi. það er hinsvegar umhugsunarefni hvaða stemming ríkir í samfélaginu gagnvart þessu vímuefni. Fyrir skömmu mátti lesa fréttir frá Englandi um að áfengi sem nú er hægt að kaupa þar í matvöruverslunum væri stórlega niðurgreitt til að fá kúnna til að gera innkaup í viðkomandi verslunum. Vandi vegna áfengisneyslu hefur vaxið gríðarlega í Bretlandi síðan lögum um sölu áfengis var breytt.

Jarðvegur fyrir þessa þróun virðist vera góður á Íslandi. Í dag var mér boðið á bókarkynningu. Í boðsbréfinu segir meðal annars:

"Með bókinni fylgir einn El Grillo bjór þannig að óhætt er að segja að þarna sé loksins komin bók með bjórbragði."


Bús í Húsó fyrir börn að djúsa

Þættinum hefur borist bréf.

 "Þú bloggar um áfengi handa börnum Hörður. Í gærkveldi átti ég erindi í Húsasmiðjuna ásamt 10 ára syni mínum og vini hans.

Meðan ég skoðaði jólaseríur af innlifun röltu þeir félagar um búðina í leit að einhverju sem þeim fannst áhugaverðara.

Þegar ég fann þá aftur stóðu vinirnir, tíu ára gamlir, með plastglös í höndum og drukki Breezer í boði Húsasmiðjunnar.

10636Ég er gáttaður og nánast orðlaus. Ekki er einasta óeðlilegt og ósmekklegt að verkfærabúð kynni áfengi það er líka ólöglegt. Þar fyrir utan stappar það nærri brjálæði að gefa 10 ára börnum það. Auk þess er ég sannfærður um að þær ungu stúlkur sem afhentu Breezer, hverjum sem hafa vildi, eru ekki orðnar tvítugar."

 

Svo mörg voru þau orð. Það getur hver sem er Googlað eftir lagabókstafnum um hvort þetta athæfi Húsasmiðjunnar er heimilt. Um siðferði og þankagang markaðsfólks í þessu kompaníi er ekki hægt að Googla. 


Hvað er svo glatt...

Mér er sagt að könnun um áfengisneyslu og aðra vímuefnaneyslu nemenda Menntaskólans við Hamarhlíð hafi verið í fréttum. Mér er líka sagt frá því að skólameistari segi könnunina óábyggilega og gefi ranga mynd.

Seinasta fimmtudag söng kór Menntaskólans við Hamrahlíð með Sinfóníuhljómsveit Ísland á tónleikum sveitarinnar í Háskólabíói. Mikil list.

Að tónleikum loknum var öllum listamönnum og heiðursgestum boðið í mikið hóf á Hótel Sögu þar sem áfengi var fyrir hvern og einn eins og hver og einn vildi. Gott og vel tónlistarmenn mega drekka þó þeir spili á kostnað skattborgara. Engan púritanahátt Hörður! En í kór menntaskólans eru börn niður í sextán ára að aldri.

Spurning hvort þetta ákvæði úr reglum M.H. eigi líka við um  kórferðir og listviðburði á hans vegum.

"Í skólanum er óheimilt að hafa um hönd áfengi eða önnur vímuvaldandi efni eða að vera undir áhrifum þeirra. Ákvæði þetta nær einnig til námsferða á vegum skólans."

Fyrirsögnin á þessu bloggi hefði kannski átt að vera; Drukkin börn í boði Sinfó 

 


Gosi, leikhús, prinsessa og pabbar, alsnægtir og asnar ásamt öðru

Í gær fórum við að hitta Gosa.

Prinsessan, sem eins og komið hefur fram er þriggja ára, er vön að fara í Þjóðleikhúsið til Skoppu og Skrýtlu. Við fórum þangað aftur og aftur og þegar maður fer á sýningu Skoppu og Skrýtlu, þá hittir maður þær. Þessvegna var ekki talað um að fara að sjá Gosa. Við fórum til að hitta Gosa, til móts við ævintýrið og til að taka þátt í göldrum leikhússins. 

Þó að leikhúsið heiti Borgar- en ekki Þjóð- hefur ekkert breyst síðan lítill drengur fór fyrir fjörtíu árum með pabba sínum að sjá Dýrin í Hálsaskógi. Bessi heitir Sveppi núna en að öðru leiti er allt eins. Það er hátíðlegt og magnað að fara í leikhús.

Sýningin var glæsileg. Við áttum von á að þriggja ára sál yrði kannski óstyrk og vildi forða sér burt svo við höfðum undirbúið hana eins og best við gátum. Lásum söguna oft vikuna fyrir sýningu og sögðum henni að ljósin yrðu slökkt og svoleiðis. Áhyggjurnar voru ástæðulausar, sýningin átti hug hennar allan.

Þegar ævintýrið um Gosa var skrifað var það samið sem framhaldssaga í tímarit eða dagblað á Ítalíu og einhvertíma las ég að þegar upphafið var skrifað hafi endanlegur söguþráður ekki verið fullskapaður. Höfundurinn varð að bæta við nýjum köflum vegna gríðarlegs áhuga kröfuharðra lesenda.

Pabbi prinsessunnar hugsaði um það meðan á sýningu stóð hvað það væri sérstakt að þarna væri ævintýri drifið áfram á ástinni milli barns og föður. Engin mamma í Gosa. Spes. Og engin sorg tengd móðurleysinu, því Gosi er vissulega eingetinn. Smiðurinn Jakob átti sér draum, ekki um konu, nei hann dreymdi um barn. Kúl kall hann Jakob. Eða mjúkur maður þessi trésmiður.

Það sem greinilega hafði mest áhrif á prinsessuna var þegar Gosi var lokaður inni í búrinu og þegar vondi sirkusstjórinn ætlaði að tukta hann til inni í búrinu var spennuþrungin sena. Í hléi gafst tækifæri til að skoða ljósmyndir og teikningar úr sýningunni. Gosi í búrinu var aðalatriðið.

Í hléi gafst pabbanum líka tækifæri til að fara í biðröð fyrir framan sælgætissölubásinn og hugsa um að allt væri nú eins í leikhúsinu. Lakkrísreimar, hrískúlur, Opal og Appelsín í gleri. Ekkert hefur gerst í fjörtíu ár, nema það að litlir einstaklingar eru ekki eins útsettir fyrir sykri og forðum tíð. Foreldrarnir, þessir miklu útsetjarar æskunnar hafa í nútímanum alveg áhuga á að bjóða börnunum sínum eitthvað annað en sykur.

Við gengum aftur inn í sal. Pabbinn með lakkrísreimar og prinsessan með Strumpagúmmí, sem hún borðaði ekki. Hvað mætti bjóða upp á í staðin hugsar pabbinn. Afhverju ekki ávextir, ristaðar hnetur eða harðfiskur? Prinsessan elskar harðfisk, segir hún. Sjálfur hefði pabbinn alveg verið til í að borga tvöhundruð krónur fyrir banana, eins og að borga sjöhundruð fyrir lakkrísreimar og Strumpagúmmí.

Eftir hlé lætur Gosi glepjast um borð í skip sem er á leið til Alsnægtalands, þar sem allir fá allt sem þeir vilja og geta borðað sælgæti allan daginn.

Í Alsnægtalandi fá allir

allt sem þá langar í 

Þar gnæfa gotteríshallir

við gul og bleik froðuský-

 

Lækir úr lakkrístaumum

ljómandi glassúrsnjór,

allt sem þú átt þér draum um

og auk þess gosdrykkjasjór.

 

Humm hugsar pabbinn, fær sér annan bita af lakkrís og finnst eins og hann þurfi að klóra sér bak við eyrun þegar farþegarnir á skipinu til Alsnægtalands fara að umbreytast. Hver er með löng og loðin eyru í þessum sal? 

Allt fer vel að lokum eftir stórkostulega skrautsýningu á hafsbotni, sem var listrænn hápunktur sýningarinnar. Hópur af ungum dönsurum og fimleikafólki, gerir frábæra sýningu stórkostulega. Það var enginn svikinn af töfrum leikhússins í gær og það var gaman að hitta Gosa og Sveppa að sýningu lokinni.

Sýningin var í boði bankans okkar. Við fengum miðana senda áður en við vissum að okkur langaði að sjá Gosa - takk fyrir það banki. Utan leikhúsdyranna beið Alsnægtaland, þar sem ekki þarf hagfræði og hagfræðinga því auðlindirnar eru ekki takmarkaðar, engu þarf að stjórna og allir geta fengið allt sem þeir vilja. Hverjum er þá ekki sama þó hann sé með löng eyru?


Heilbrigð sál...

 

Þær eru ágætir vinir fjölskyldunnar hér, tvær níu og ellefu ára systur í Setbergshverfinu, sem æfa íþróttir hjá Haukum. Ég man ekki hvort það er handbolti, fótbolti eða einhver annar bolti. Enda skiptir það ekki máli. Það sem skiptir máli í þessari frásögn eru áhrifin sem þjálfarinn hefur haft á þær systur. Í tvö ár hafa þær ekki drukki kók né aðra gosdrykki vegna þess að fyrirmyndin þeirra, þjálfarinn með eldmóðinn, segist ekki gera það og það sé verulega óholt.

Það er sagt frá þessu hér í samhengi við blogg um togstreituna um hvort áfengi eigi að vera innan dyra í íþróttahúsum. Og það er líka sagt frá þessu í samhengi við blogg frá í gær um að Bæjarstjórn Hafnarfjarðar sé á móti frumvarpi um sölu áfengis í matvöruverslunum, að einum bæjarfulltrúa undanskyldum.

Nú hefur mér verið bent á að bæjarfulltrúinn, Rósa Guðbjartsdóttir, sem svo gjarnan vill að vímuefni verði selt í matvörubúðum sé  einnig formaður  Knattspyrnudeildar íþróttafélagsins Hauka. Sá sem benti mér á þetta hafði það á orði að; "Bæjarfulltrúar þurfa stundum að hafa í huga hlutverk sín á öðrum vettvangi" Það er spurning hvort Rósa gerði það á seinasta bæjarstjórnarfundi og talað máli fótboltadeildar Hauka eða hvort málflutningur hennar þar var þvert á hagsmuni hinnar göfugu íþróttahreyfingar.

Fyrirsögnin hér gæti auðvita verið Formaður knattspyrnudeildar Hauka vill selja áfengi í matvöruverslunum. Þannig yrði bloggið jafnvel fréttnæmt. Mér finnst þó skemmtilegra að vísa til sálarinnar sem eitt sinn var í hraustum líkama íþróttahreyfingarinnar. 

Vonandi halda systurnar úr Setberginu áfram að hafa jafn frábærar fyrirmyndir hjá Haukum og unga konan með eldmóðinn, sem þjálfar þær núna, er þeim. 

 


Bæjarstjórn Hafnarfjarðar vill ekki áfengi í matvörubúðir

Bæjarstjórn hafnarfjarðar fjallaði í gær um það fræga frumvarp Sigurðar Kára og félaga að selja megi áfengi í matvöruverslunum. Niðurstaðan umfjöllunarinnar var svohljóðandi:

"Bæjarstjórn Hafnarfjarðar mælir eindregið gegn því að frumvarp til laga um sölu áfengis og tóbaks (sala léttvíns og bjórs), 6. þingmál, verði samþykkt. Reynsla annarra þjóða af auknu aðgengi að áfengi með afnámi einkasölu sýnir aukna neyslu, ekki síst meðal ungmenna og þar af leiðandi mikla fjölgun félagslegra og heilsufarslegra vandamála.


Þetta frumvarp stefnir því í þveröfuga átt eftir að náðst hefur mikilvægur árangur í forvörnum gegn notkun áfengis og annarra vímuefna, með markvissri vinnu í Hafnarfirði og víðar.
Einnig er vakin athygli á að ekki hefur verið leitað formlegrar umsagnar þeirra aðila sem skv. frumvarpinu munu bera ábyrgð á framkvæmdinni."

Mikil umræða varð á fundi bæjarstjórnarinnar um málið og eini bæjarfulltrúinn sem vill fá áfengi inn í matvörubúðir greiddi á endanum atkvæði á skjön við alla aðra bæjarfulltrúa. Það var Rósa Guðbjartsdóttir. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband