16.12.2007 | 17:52
Æðislegt aðhald
Það var auglýst eftir því á einu bloggi hér hvort eitthvað hafi skolast með alveg óvart, á síðustu dögum þingsins eins og í vor.
Þeir samþykktu að fella úr gildi lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra og korteri seinna samþykktu þeir fjárlög.
Fjárlögin eru aðhaldssöm og sem dæmi má nefna að framlög til meðferðar ölvaðra manna og drykkjusjúkra hjá SÁÁ eru skorin niður um rúmar 80 miljónir á sambærilegu verðlagi.
Enginn þingmaður lagði fram tillögu um hækkun framlaga til SÁÁ, Heilbrigðisnefnd þingsins hafði engan áhuga á því, heilbrigðisráðherra óskaði þess ekki og samninganefnd hans í viðræðum um þjónustusamning við samtökin er vel upplýst og gerir sér grein fyrir að niðurskurður blasir við.
Það má gera ráð fyrir að meðferð á Staðarfelli í Dölum verði lögð niður og árangur eftir afeitrun á Vogi muni þar með minnka. Það er líka rökrétt að gera ráð fyrir því að Bráðamóttöku SÁÁ verði lokað sem hefur í för með sér fækkun innlagna á Vog um eina 800 sjúklinga. Það má einnig búast við því að viðhaldsmeðferð fyrir ópíumefnafíkla verði skorin niður eða aflögð.
Þetta eru valkostir sem stjórn SÁÁ og samninganefnd ráðherrans þurfa að velja úr og þeir hafa allir slæm áhrif.
Álag á aðrar heilbrigðisstofnanir mun þar með aukast. Til dæmis verður meira að gera á Landspítalanum en afeitrunarmeðferð þar kostar þjóðarbúið þrisvar sinnum meira en afeitrun hjá SÁÁ.
Biðlistar munu lengjast og einhverjir sjúklingar munu leita eftir læknisþjónustu til ESB landa eins og þeim er heimilt, á kostnað Tryggingastofnunar Ríkisins.
Færri fíklar munu ná bata og þar með munu lögbrot, róstur og ofbeldi í samfélaginu aukast með tilheyrandi kostnaði við löggæslu og margskonar heilsugæslu.
Að lokum má búast við því að það sama gerist og seinast þegar Bráðamóttöku SÁÁ var lokað og dauðsföll í sjúklingahópnum verði mjög mörg.
Við getum því óskað heilbrigðisráðherra, formanni Heilbrigðisnefndar og háttvirtum fjármálaráðherra til hamingju með fjárlögin, því þau eru aðhaldssöm og aldrei hefur tekjuafgangur (hagnaður) ríkisins verið meiri eða um þrjátíu og níu þúsund miljónir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.12.2007 kl. 07:31 | Facebook
Athugasemdir
Ég skil ekki hvað þessir menn eru að hugsa, þega svo lítið vantar upp á að reka áfengismeðferð sómasamlega. Mér dettur einna helst að inngrónir fordómar gagnvart þessum sjúkdómi hafi ekki alveg náð að hverfa með aukinni upplýsingu. Allavega hefur sú upplýsing ekki náð inn í þingsali.
Það er umhugsunarvert og raunar alger skandall að SÁÁ og Háskólinn skuli þurfa að fjármagna starfsemi sína á spilakössum. Ég næ bara ekki utan um þá rökleysu. Hvað er upphæðin, sem þetta skilar eftir umsetningarkostnað? Mér finnst að SÁÁ verði að leita annara leiða eða setja þrýsting á það að banna þetta og fá fullt rekstrarfé á fjálögum. Að þaga þetta svona í hel og réttlæta þetta, rýrir trúverðugleika stofnunarinnar og jaðrar þetta við hreina spillingu í mínum huga. Þið eigið skömm skilda fyrir það.
Þetta er eins og að krabbameinsdeildir fjármögnuðu sig á tóbakssölu. Þennan hnút verður að höggva á. Það er nægur peningur til fyrir þessum rekstri og ef spilakassar verða bannaðir, neyðast stjórnvöld til að axla ábyrgð á fíknivandanum í stað þess að stuðla að honum.
Nefskattur á áfengi, gætui verið lausn. En í hugum margra hjá SÁÁ, sem réttlæta spilakassa, virðist vera að nærtækara væri að fjármagna starfsemina með áfengisauglýsingum.
Hvar er heiðarleikinn, sem sjúklingum er innrættur? Hvers vegna praktíserar SÁÁ ekki það sem það prédíkar? Í minni sveit var slíkt kallað hræsni.
Með vinsemd og virðingu annars Hörður minn.
Jón Steinar Ragnarsson, 16.12.2007 kl. 18:18
Ég vil svo bæta við að orkunni og fjármagninu r dreift í of marga staði og eru leikmenn í trúfélögum gildir ´sem meðferðaraðilar, þrátt fyrir ítrekaðann skandal og spillingu. Þar eru kannski sömu fordómar á ferð. Að þetta trúarrugl, sé nógu gott fyrir veikustu aumingjana? Ef menn hættu þessari hálfvelgju og færu eftir lögum, þá væri þessum galdralækningum útrýmt og fjármagnið næði fókus í einni opinberri sjúkrastofnun. Morðingjar og dópsmyglarar mega opna meðferðarheimili skömmu eftir afplánun, aðeins ef þeir segjast í liði með Jesú. Finnst þér þetta nokkur hemja?
Ég hef einnig heyrt að fjármálaspilling sé mikil í þessum félögum eins og dæmi sanna og eitt varð ég var við á sínum tíma að menn voru ekki skráðir úr meðferð þótt þeir yfirgæfu ónefnda meðferðastöð kristinna og var tekið á móti gjöldum fyrir tóm sjúkrarúm í stórum stíl. Menn sem fóru og komu aftur eftir mislanga túra, duttu ekki út af sjúkradagpeningalista t.d.
Jón Steinar Ragnarsson, 16.12.2007 kl. 18:26
Jón Steinar, ég er sammála flestu sem þú skrifar í báðum þessum innleggjum. Seinast þegar ég ræddi um spilakassa og SÁÁ var það hér og ekki sérstök réttlæting á ferð, þar er reyndar líka rætt um hræsni og í sömu umræðu fór einmitt fram viðamikil rökræða um trúfélög í heilbrigðisþjónustu.
Með samskonar vinsemd og tilheyrandi Jón Steinar.
Hörður Svavarsson, 16.12.2007 kl. 19:03
Jón Steinar er eins og margir sem tjá sig um SÁÁ og spilakassa, fullur af fordómum, en mun sennilega afneita því sjálfur.
Tekjur SÁÁ af spilakössum eru innan við 5% af spilakassatekjum, gróft reiknað. Háskólinn er þá með 50%, Rauði krossinn 30% og hjálparsveitirnar 15%. Samt sem áður er alltaf talað um SÁÁ þegar menn vilja hneykslast á þessum kössum. Það er vegna fordóma þeirra sem tjá sig, ekkert annað getur útskýrt þetta þröngsýna sjónarmið.
Á meðan situr samninganefnd ríkisins og heldur því fram á minnisblöðum og munnlega að tekjur SÁÁ af spilakössum séu eign ríkisins og rétturinn til ráðstöfunnar þeirra tekna sé bundin ríkinu með lögum. Á sama tíma greiðir ríkið nánast ekkert fyrir afnot af húsnæði SÁÁ.
Ef menn vilja nota orðið hræsni af einhverju gagni í þessu samhengi mættu þeir fyrst líta í eign barm áður en þeir hreykja sé hátt.
Um sjúkraþjónustu amatöra sem ríkið fjármagnar má segja að heilbrigðisráðuneytið fjármagnar orðalaust slíkan rekstur án nokkurs þjónustusamnings og án eftirlits og hefur gert lengi. Þá er þjónustan ýmist kölluð búsetuúrræði eða heilbrigðisþjónusta allt eftir tilefninu og meðalinu.
Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 20:27
Hér er blogg af svipuðum toga
Hörður Svavarsson, 16.12.2007 kl. 21:17
Mér finnst þú ávallt eitthvað svo óbalanseraður í tilsvörum þínum Arnþór. Að núa mér hræsni um nasir er ekki fallega gert. Ég er einvörðungu að benda á að SÁÁ ætti að berjast gegn þessum vággesti í stað þess að byggja hluta afkomu sinnar á henni. Ég nefni háskólann líka. Það er óviðeigandi að slík stofnun og hjálparsamtök geri sér það að féþúfu að auka eymd manna. Þessi 5% er varla eitthvað sem hið opinbera getur ekki bætt ykkur upp ef þið kippið ykkur út úr þessu.
Sannleikanum er hver sárreiðastur, það er augljóst. Ert þú ekki innanbúðarmaður hjá SÁÁ? Mér hugnast ekki viðmótið, sem þú hefur fyrir hönd þess eðla lífgjafa míns. Eru það fordómar að telja spilakassa af hinu illa? Hafa dæmin ekki margsannað að það er akkúrat tilfellið. Þú lætur eins og ég hafi ráðist persónulega á þig. Ég verð að lýsa undrun minni á þessum tón, sem og tilsvörum, sem þú gefur, ef ég bendi á eitthvað inni á síðu SÁÁ. Hvergi hef ég mætt öðrum eins þótta.
Með fullri virðingu annars.
Jón Steinar Ragnarsson, 17.12.2007 kl. 14:01
Varðandi tilsvarið þitt, sem þú linkaðir á, þá get ég fyllilega skrifað undir skilgrininguna á hræsni, sem þar er birt. Ekki vil ég fara út í eitthvað guðfræðiskylt stagl og orðsyfjar í því samhengi en fyrir mér, sem leikmanni, er það ekkert bara pínulítil hræsni að ýta undir þjóðfélagsmein, sem þið síðan bjóðið meðferð við. Happdrætti af einhverjum toga myndi ég styðja en eðli spilakassa er annað og eru þeir hanaðir með fíknikrókana og skyndigróðann í huga. Ég velti því fyrir mér hvort þessi 5% standi yfirleitt undir því viðbótarálagi, sem síaukin spilafíkn leggur á þjónustu ykkar.
Þetta hefur vafalaust verið rætt í marga hringi í ykkar hóp og ljóst að einhver uppstokkun verður að verða til að móta fjármögnun ykkar til framtíðar. Þar finnst mér að menn ættu að skoða hvort dreifing fjármagnsins á amatöra standist lög og almenn mannréttindi. Rétt til bestu faglegrar þjónustu.
Ég er á því að það ætti að loka þessum skottulækningarbúllum og láta fjármagnið og uppbygginguna vera hjá Sáá.
Jón Steinar Ragnarsson, 17.12.2007 kl. 14:32
1. okt ritaði ég þetta hér:
"Í nýrri reglugerð um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu
og faglegar lágmarkskröfur, sem sett er í kjölfar nýrra laga um landlækni og heilbrigðisþjónustu, er kveðið á um að þeir sem hyggjast hefja rekstur heilbrigðisþjónustu, skuli tilkynna fyrirhugaðan rekstur til landlæknis og ber landlækni að staðfesta hvort fyrirhugaður rekstur uppfylli þær faglegu lágmarkskröfur sem gerðar eru á hverjum tíma.
Það er alveg ljóst að sumir sem sem reka einhverskonar starfsemi í dag stæðust ekki þær kröfur sem landlæknir verður að gera, og fengju því ekki starfsleyfi ef þeir væru að fara af stað með rekstur sinn núna. Þrátt fyrir það er starfsemin kostuð af reikningsliðum fjárlaga sem vistaðir eru í Heilbrigðisráðuneyti. Þannig má einmitt segja að stunduð séu óeðlileg og ólögleg undirboð, sem koma í veg fyrir eðlilegt fjármagn renni til meðferðar á áfengissjúkum í heilbrigðiskerfinu, þátt fyrir að þessi sjúklingahópur eigi skýlausan lagalegan rétt á alvöru heilbrigðisþjónustu."
Hörður Svavarsson, 17.12.2007 kl. 17:02
Takk fyrir ómakið Hörður.
Jón Steinar Ragnarsson, 17.12.2007 kl. 20:57
Ég biðst undan geðgreiningum þínum Jón, en er auðvitað leiður yfir hneykslan þinni. Sú ákvörðun að fjármagna starfsemi SÁÁ að hluta til með peningum frá spilakassafélaginu er pólitísk ákvörðun. Það er staðreynd sem endurspeglast í viðræðum SÁÁ við ríkið, eins og ég lýsti í fyrra innleggi mínu. M.ö.o. þá lítur ríkið á þessa fjármuni sem sitt eigið framlag til heilbrigðisþjónustu. Málið er ekki einfalt, en SÁÁ vildi að sjálfsögðu frekar að ríkið borgaði húsaleigu í stað þessara peninga.
Arnþór Jónsson (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 11:55
Mikið er gaman að koma heim frá rólegu Ameríku í hasarinn í bloggheiminn á íslandi, bara stanslaust stuð hérna. :)
Mjög gaman að sjá bæði hér og annarstaðar í bloggheiminum hvað fólk hefur mikin áhuga á meðferðarmálum svona þegar nýtt ár að renna í garð og þar af leiðandi skulum við vona að auknum peningum verði varið til meðferðar og forvarnamála. Því miður á ég nú ekki von á því eftir að hafa rennt yfir nýju fjárlögin.
Kveðja Inda Hrönn
Inda Hrönn (IP-tala skráð) 18.12.2007 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.