6.11.2007 | 00:22
Hver er maðurinn?
Ari Matthíasson framkvæmdastjóri skrifar svo á umræðuvef SÁÁ;
"Einn prófessor við Háskóla Íslands skrifar í Fréttablaðið föstudaginn 2. nóvember og segir m.a.: "Hávær hópur úrtölumanna reynir nú að öskra niður Sigurð Kára Kristjánsson alþingismann og aðra flutningsmenn frumvarps um að leyfa að selja bjór og léttvín í búðum."
Með þessum ummælum er hann að kalla landlækni, lýðheilsustöð, biskupinn, áfengisráðgjafa, áhugafólk um áfeng- og vímuefnavandann, lækna, ritstjóra Morgunblaðsins, ungmennahreyfinguna og fjölmarga hugsandi menn öskrandi úrtölumenn.
Prófessorinn segir ennfremur:
"Við getum ekki látið þetta fólk gjalda þess, að sumir aðrir vilja fara beina leið til helvítis og nota til þess ýmist áfengi eða önnur efni. Þeir menn verða alltaf til. Á að refsa venjulegu fólki fyrir það?"
Það ber vott um hrópandi fordóma, vanþekkingu á eðli alkóhólisma og almenna mannfyrirlitningu að telja að alkóhólistar velji það að fara beina leið til helvítis og noti til þess ýmist áfengi eða önnur efni. Prófessorinn slæst þarna með ummælum sínum í hóp afhommarans Alan Chambers, sem hingað kom til að afhomma landann á vegum Hvítasunnumanna og sagði við það tækifæri að trú sín væri að alkóhólistar myndu brenna í víti.
Þarna eru prófessorinn og afhommarinn væntanlega að vísa til þess að alkóhólismi sé synd og með því að hafna nútíma læknavísindum. Og svo er verið að saka þá sem taka til varna fyrir alkóhólista um að vera ofstækismenn!"
Merkilegt.
Hver er þessi prófessor?