uno - Hausmynd

uno

Sófus, Siggi og Sjálfstæðisflokkur

 

Í gær bloggaði ég um erfiðleika í Sjálfstæðisflokknum í Hafnarfirði og eftir hádegið för ég í jarðarför Sófusar Berthelsen eldri.

Það er stutt síðan ég var í jarðarför seinast. Þá kvaddi ég mikinn vin minn Sigurð Arnórsson áfengisráðgjafa í Bandaríkjunum. Við Sigurður kynntumst fyrir tilviljun fyrir rösklega sjö árum og ég vissi að við gætum orðið ágætir vinir þegar hann tilkynnti mér glottandi að auðvitað væri hann krati. Alli góðir menn væru jú kratar – inn við beinið.

Seinna réði tilviljun því að við Siggi lærðum sama fag, sitthvoru megin á hnettinum og tilviljun réði því líka að við bjuggum í sama húsi í rúmt ár. Sameiginleg áhugamál og nálægðin styrkti vináttuna.

Um þetta hugsaði ég í dag þegar ég horfði á kistu Sófusar og hugsaði með mér að þeir hefðu getað kunnað vel hvor við annan Sófus og Siggi. Sófus var mikill jafnaðarmaður og átti það til að stinga niður penna til að undirstrika lífsviðhorf sín, jafnvel þótt hann væri orðin háaldraður.

Þannig rifjaðist það upp fyrir mér í hinni vinalegu athöfn í dag, að góðvinur Sigga bæjarfulltrúinn Almar Grímsson, varð eitt sinn fyrir snörpum skrifum Sófusar,  fyrir þá sök að vera í röngum stjórnmálaflokki. Þegar ég kom heim gróf ég þennan texta upp.

“Heill og sæll Almar Grímsson.
Og kærar þakkir fyrir bréfið frá þér sem ég hirti úr póstkassa mínum áttunda dag febrúarmánaðar.

Eftir að hafa lesið bréfið tvisvar varð mér hugsi um stund og ég komst að þeirri niðurstöðu að þarna væri maður að mínu skapi, sem muni vinna að mínum þörfum, en þær eru nokkrar þar sem ég er 87 ára gamall.

Vitanlega á ég að láta þennan mann hafa mitt atkvæði í vor, hugsaði ég, en svo áttaði ég mig á því að aftan í þér , Almar, myndu hanga þeir menn sem ég síst vildi hafa í meirihluta bæjarstjórnar. Menn sem tilheyra þeim flokki sem gáfu Bæjarútgerðina og þessa dagana koma því sem bæjarfélaginu tilheyrir í eigu einkaaðila.

Mín ósk er sú að þeir sem nú sitja í meirihluta bæjarstjórnar glati sínum völdum og að nýr maður komi í bæjarstjórastólinn. Sá sem nú situr þar getur hæglega brosað fyrir framan myndavélarnar úr öðrum stól.

Að endingu – þú ert maðurinn sem okkur gamlingjana vantar og ég mundi glaður láta þig hafa mitt atkvæði, og reyndar reyna að safna atkvæðum fyrir þig – ef þú tilheyrðir Samfylkingunni!

Með fullri virðingu fyrir þinni persónu.
Sofhus Bertelsen eldri.”


Þannig skrifaði þessi heiðursmaður í Fjarðarpóstinn þann 21. febrúar árið 2002. Og svona hrærðust saman á einum degi hugsanir mínar um Sigurð vin minn, Sófus afa konu minnar og vanda Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.
  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband