17.11.2007 | 22:46
Brennivín í íþróttahúsinu
Las það í Fréttablaðinu á föstudagsmorgun að ÍA hefði brotið reglur Akranesskaupsstaðar með því að halda almennan dansleik með vínveitingum í íþróttahúsinu sínu.
Mér fannst þetta athyglisvert, því daginn áður var ég á fundi með forvarnarnefnd og íþrótta- og tómstundaráði Hafnarfjarðar þar sem reglur um skemmtanahald í íþróttahúsum voru til umræðu. Menn hafa greinilega mismiklar áhyggjur af vínveitingum inni í þessum húsum.
Íþróttafulltrúinn mætti vel undirbúinn til leiks á fundinn með handskrifaða ályktun í farteskinu og talaði lengi um sögulegar staðreyndir. Það var fróðlegt.
Ástand þessara mála hefur versnað í Hafnarfirði og ef gripið er til orðalags íþróttafulltrúans þá eru íþróttahúsin farin að hýsa risastór sveitaböll, með öllu sem því fylgir, inni í miðjum bæ.
Frést hefur af börnum inni á þessum skemmtunum, reykt hefur verið innan dyra, drykkjulæti og slagsmál verið, skemmdir á salernum og parketi og lögreglu hefur verið meinaður aðgangur. Ekki gott.
Á hinn bóginn hafa einhverjir fulltrúar í Íþróttaráði áhyggjur af því að það verði túlkað þannig að ekki megi vera gaman í Hafnarfirði ef svona samkomur verða bannaðar og það fylgdi líka sögunni að þessar samkomur væru góð tekjulind fyrir íþróttafélögin.
Opinber forvarnarnefnd verður að stíga hóflega til jarðar og gæta þess að ana ekki af stað með forsjárhyggju, því það er fátt jafn slæmt í nútíma samfélagi og það að einhver taki ráðin af öðrum. Við samþykktum því bókun Íþróttafulltrúans eftir að Forvarnarfulltrúinn hafði komið henni í stafrænt form. Hún er nú aðgengileg á óravíddum alnetsins og til vitnis um þennan fund sem tók ekki jafn afgerandi afstöðu og bæjarstjórnin á Akranesi hefur greinilega gert.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.