uno - Hausmynd

uno

Má vinna undir áhrifum?

Í Bandaríkjunum hafa í langan tíma verið í gildi alríkisreglur um að starfsmenn í flutningaiðnaði gangist undir vímuefnapróf. Sérstaklega þjálfaðir starfsmenn taka prófin sem framkvæmd eru með tilviljunarúrtaki. Þannig mega þeir sem stjórna fólksflutningabílum, lestum og flugvélum sæta því að geta lent í tilviljunarúrtaki og þurfa að láta af hendi þvagsýni til skoðunar.

Sérstök vímuefnapróf eru nú seld í stórmörkuðum og á bensínstöðvum á Íslandi. Aukin spurn er eftir slíkum prófum meðal foreldra og annarra sem koma að uppeldi barna. Vímuefnaprófin kosta frá 1.000 kr. í 1.800 kr. eftir því hversu margar tegundir vímuefna þau mæla í þvagi en hægt er að prófa fyrir kannabis, amfetamíni, metamfetamíni, kókaíni og ópíum-efnum. Þau virka á svipaðan hátt og þungunarpróf, nemanum er stungið í þvag, og ef tvær línur birtast er prófið neikvætt.

New York Times greindi frá því þann 6. október að krufning hefði leitt í ljós að tveir slökkviliðsmenn sem létu lífið í stórbruna nýlega voru undir áhrifum vímuefna. Annar mannanna, Paul Cahil 55 ára, hafði mikið magn alkahóls í líkama sínum þegar hann lést í bruna á kínverskum veitingastað. Félagi hans, Warren Payne, greindist með leifar af kókaíni í líkama sínum við krufningu. Í kjölfarið hafa orðið umræður vestanhafs um að vímuefnapróf á borð við þau sem lögð eru fyrir starfsmenn flutningageirans verði einnig lögð fyrir þá sem starfa við löggæslu og slökkvilið.

Fréttamenn á Íslandi hafa spurt lögreglu á Íslandi út í hvernig þessum málum sé háttað hér. Því var til svarað að vímuefnapróf meðal löggæslumanna hafi stundum verið til umræðu, en engar ákvarðanir teknar og engin stefnumótunarvinna í gangi hvað þetta varðar.

Engin umræða hefur verið um að heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi gangist undir vímuefnapróf. En sjálfsagt er að velta því fyrir sér hvort þjónustuþegar, sem mikið geta átt undir því að þeir sem annast þá hafi ekki skerta dómgreind, megi ekki eiga sanngjarna kröfu um slíkt. Í þessu samhengi má líka hugsa um það hvort heilbrigðisstarfsmenn sem koma að meðferð áfengis- og annarra vímuefnaneytenda eigi ekki að ganga á undan með góðu fordæmi.

Kannski er einmitt sérstök þörf á því að heilbrigðisstarfsmenn sem vinna við meðferð gangist undir svona próf með reglubundnum hætti því margir sem sækja sér menntun á þessu sviði hafa á árum áður verið greindir með áfengissýki eða aðra vímuefnafíkn. Fíknsjúkdómar hafa eins og aðrir krónískir og langvinnir sjúkdómar tilhneigingu til að láta aftur á sér kræla.

 

Pistillinn var skrifaður fyrir far.is 29.10.07 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband