8.11.2007 | 12:04
Ekki góðar tvíbökur Guðlaugur
Til stendur að skera upp heilbrigðiskerfið á Íslandi.Fyrirkomulagið mun virka þannig að innkaupastofnunin, eða Sjúkratryggingarnar, munu kaupa tiltekinn fjölda aðgerða af heilbrigðisstofnunum og semja um greiðslur. Segir Fréttablaðið í dag og hefur eftir ráðherra heilbrigðis.
Við höfum vísir að svona fyrirkomulagi. Vímuefnameðferð hefur verið einkarekin heilbrigðisstarfsemi í áratugi. Ríkið sem hefur þá lagalegu skyldu að veita þjónustuna, kaupir hana af SÁÁ. Hvernig virkar það?
Nú óskar ríkið eftir því að kaupa viðhaldsmeðferð fyrir 25 ópíumfíkla. Sjúklingarnir eru tvöfalt fleiri. Hvaða 25 sjúklinga á að velja til að veita áframhaldandi meðferð? Hvað á að gera við hina 25 sem fá ekki lyfin sín áfram. Hver ætlar að velja úr hópnum? Hvernig á að velja þá sem fá þessa lögboðnu heilbrigðisþjónustu?
Viðhaldsmeðferð við ópíumfíkn sparar samfélaginu stórkostlegar upphæðir, um það vitna rannsóknir. Viðkomum á bráðamóttökur fækkar, glæpum fækkar stórlega og álag á löggæslu verður minna. Á það er ekki horft, heldur eingöngu kostnað við meðferðina.
Ef að þetta er vísirinn að því kerfi sem koma skal, þá verður kerfið hér eins og í Ameríku þar sem tryggingafélög deila og drottna. Eini munurinn verður sá að hér verður eitt risavaxið ríkisrekið sjúkratryggingafélag.
Hvað ef Sjúkratryggingar (ehf?) kaupa 100 mjaðmakúluskiptiaðgerðir en þeir sem þurfa nýja mjaðmaliði verða 110? Hvað eru menn að pæla? Eða er verið að pæla?Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:08 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.